Alaska - 1

Total number of words is 4345
Total number of unique words is 1629
29.0 of words are in the 2000 most common words
38.0 of words are in the 5000 most common words
38.0 of words are in the 8000 most common words
Each bar represents the percentage of words per 1000 most common words.

ALASKA.
* * * * *
LÝSING
A LANDI OG LANDS-KOSTUM,
ÁSAMT SKÝRSLU INNAR ÍSLENZKU SENDINEFNDAR.
* * * * *
UM
STOFNUN ÍSLENZKRAR NÝLENDU.
* * * * *
EFTIR
JÓN ÓLAFSSON,
FORMANN ALASKA-FARARINNAR 1874, M.M.
* * * * *
WASHINGTON, D.C.
1875.
* * * * *
TIL LANDA MINNA.
Langan formála fyrir lítilli bók skal ég ekki rita.
Það, sem ég vildi sérlega taka fram hér, er það: að það er EKKI tilgangr
minn með riti þessu, að hvetja fólk til útflutninga af Íslandi alment, eins
og hver og einn getr séð, er les síðari hlut kvers þessa; heldr AÐ EINS: að
benda þeim, ER Á ANNAÐ BORÐ ÆTLA að flytja vestr, á þann stað, er ég ætla
ÞEIM SJÁLFUM og ÞJÓÐERNI voru bezt hentan. Hins vegar hefi ég álitið það
skylt að verja réttmæti útflutninga.--Það er, ef til vill, eins hentugt
fyrir lesandann, að lesa FYRST síðari hlut kversins: "Um stofnun ísl.
nýlendu."
Höfuðrit það, er ég hefi við stuðzt, er: "ALASKA, and its resources. By Wm.
H. Dall, Director of the Scientific Corps of the late W.U. Telegraph
Expedition. Boston. 1870." (xii + 628 bls. stórt 8º með myndum og korti.)
Auk þessa hefi ég yfir farið og lesið í vetr yfir 100 bœklinga, rit og blöð
um Alaska eða að því lútandi meira og minna.
Ég kann öllum þakkir, er hafa stutt mig í samningi bœklingsins, um fram alt
mínum ógleymanlega vini Marston Niles, Esq., lögfrœðingi í New York, fyrrum
foringja í sjóhernum; þar næst inum ágæta vísinda-manni og frœga Alaska-
fara W.H. Dall, og eins yfirstjóra strandmælinga-skrifstofunnar, og öllum
öðrum, er mér hafa lið og aðstoð sýnt,--að ég ekki nefni hér sérstaklega,
hve þakklátan ég finn mig við Forseta Banda-ríkjanna og sjóliðs-ráðherrann
og ráðherra inna innlendu mála.
Ef nokkuð gott leiðir af bók þessari, þá er það mest öðrum að þakka, en
mér, og hefi ég þó lagt í sölurnar fyrir mál þetta það lítið, er mér var
unnt. En guð veit ég hefi gjört það í góðum tilgangi, og að ég tel mér þá
fullu launað, ef árangrinn mætti svo blessast löndum mínum sem ég ann þeim
bezt.
Ritað í febrúar-mán. 1875,
_Washington, D.C._
JÓN ÓLAFSSON.
* * * * *
TIL MINNIS.
1 fet enskt = 135.115 Parísarlínur.
1 fet danskt = 139.13 Parísarlínur.
1 míla ensk = 5280 ensk (= 5127 dönsk) fet.
1 míla dönsk = 4-1164/1709 enskar mílur.
1 jarðmíla = 1 dönsk míla = 1/15 mælistigs (af miðbaugi).
1 "knútr" (_knot_) = 1 míla, 885 fet, 6 þuml. enskir. ["Knútr" = sjómíla
ensk.]
30 knútar (hér um) = 34.75 mílur enskar.
1 samfella (_league_) = 3 knútar.
1 □ jarðmíla = 21.16 □ mílur enskar.
→ Lesarinn ætti jafnan að hafa í hug, að HÉRUMBIL er:
1 míla dönsk = 4-2/3 enskar mílur.
6 knútar = 7 enskar mílur.
1 samfella = 3 knútar.
1 □ míla dönsk = 20 □ mílur enskar (liðugar).
1 dollar ($1.00) er 100 cent. þá er punktr sker tvo stafi aftan af tölunni,
táknar það dollara fyrir framan, en cent fyrir aftan punktinn; t.d.:
$175.50 þýðir 175 doll. og 50 cent; $10.00 þýðir tíu dollara og engin cent.
$1.00 í gulli gengr oftast um 3 krónur, 67 aura (þ.e.: 11 mörk); en pappírs
dollar um 3 krón. 33 aura (þ.e.: 10 mörk) í dönskum peningum.
→ Grœnuvíkr-baugr liggr 18° 9' 23" austar, en Ferró-baugr. (Grœnavík =
_Greenwich_.)
* * * * *
EFNI.
ALASKA. bls.
I. KAFLI: LANDLÝSING [1. Takmörk.--2. Höf.--3. Firðir og flóar.-- 1.--8.
4. Eyjar og eyja-klasar.--5. Strendr og hafnir.--6. Fljót og ár.-
-7. Hafstraumar.--8. Fjallgarðar.--9. Stœrð Alaska.]
II. KAFLI: UM SÖGU LANDSINS 8.--9.
III. KAFLI: INNLENDAR ÞJÓÐIR 9.--10.
IV. KAFLI: LOFTSLAG OG GRÓÐR [Inngangr.--1. Yukon-fylki.--2. 10.--21.
Aleuta-fylki.--3. Sitka-fylki.--Ályktar orð.]
V. KAFLI: STEINA OG MÁLMA TEGUNDIR [Um jarðar-frœði.--Steinar og 22.--24.
málmar o.s.frv.]
VI. KAFLI: FISKIVEIÐAR 25.--26.
VII. KAFLI: LOÐSKINN, DÝRAVEIÐAR O. FL. [Inngangs-orð.--1. Sæ-otr 26.--27.
og þelselr.--2. Land-dýr.--3. Fleira bjargræði.]
VIII. KAFLI: SKÝRSLA INNAR ÍSLENZKU SENDINEFNDAR [Cooks-flói.-- 28.--33.
Kadíak.--Niðrlag.]
* * * * *
UM STOFNUN ÍSLENZKRAR NÝLENDU.
I. SIÐFERÐISLEGT RÉTTMÆTI VESTRFARA [Frá sérstaklegu (íslenzku) 37.--42.
sjónarmiði.--Frá almennu sjónarmiði.]
II. NAUÐSYN ÍSLENZKRAR NÝLENDU [Tvens konar vestrfarar.--Ytri og 42.--43.
innri (andleg) nauðsyn nýlendu.--Þjóðernisást.]
III. LANDVAL [Kröfur, er gjöra verðr til nýlendu-stœðis.-- 44.--46.
Heimfærsla þeirra.]
IV. NIÐRLAG [_Praeteritum_: Hvað gjörzt hefir í máli þeu.-- 46.--48.
_Praesens_: Annmarkar á Alaska.--_Futurum_: Hvað verða má.]
* * * * *
ALASKA.
* * * * *
I. KAFLI.
LANDLÝSING.
1. _Takmörk._
Alaska nefnist vestasti og nyrzti hluti meginlands Norðr-Ameríku; er það
skagi allmikill og gengr til vestrs frá landareign Breta.--Banda-ríkin eiga
nú landið.--Norðan að Alaska liggr Íshafið nyrðra, en að vestan liggr
Bærings-sund (Bering Strait) og Bærings-haf (Bering Sea), en að sunnan
Norðrhafið Kyrra (North Pacific Ocean); að austan er Alaska áfast við
meginlandið og taka þar að eignir Breta. Landið er þannig girt sævi á þrjá
vegu.
Þar sem mœtist Alaska og eignir Breta, eru in nákvæmari takmörk þannig:
Alaska nær svo langt suðr að austan, sem nemr til syðsta tanga eyjar
þeirrar, er nefnist Vala-prinz-ey (Prince of Wales Island), en það er á 54°
40' norðrbreiddar og nær 132° vestrlengdar (frá Grœnuvík); felli svo beina
línu til austrs í mynni fjarðar þess, er Portlands-fjörðr (Portland
Channel) nefnist, en svo norðr á við þaðan inn eftir miðjum firði miðmunda
milli beggja landa, á fram til 56° norðrbreiddar; en þaðan skal línu draga
til norðrs og vestrs samfara ströndinni (_parallel_ með ströndinni fram),
svo að hvergi sé skemra né lengra en 10 samfellur (30 sjómílur) til sjávar,
og mælt frá fjarða-botnum; skal þessari línu þannig fram halda unz hún kemr
á Elías-tind (Mount St. Elias); skér hún þar 141. mælistigslínu
vestrlengdar (frá Gr.) og skal hún þaðan af falla saman við þessa
mælistigslínu í hánorðr alt í Íshaf út--og er þetta takmarkalína Alaska-
lands og Bretlands-eigna.
Takmörkin í hafi að vestanverðu milli Asíu og Alaska eru þannig: Stinga
skal mælipunkt í Bærings-sundi á 65° 30' norðrbreiddar og 169° vestrlengdar
(frá Gr.) og verðr það miðvega milli Ratmanoff-eyjar og Krúsenstern-eyjar,
láti svo línu fylgja hádegisbaug til norðrs í Íshaf út; dragi svo beina
línu í suðr og vestr frá þeim inum sama punkti, þá er falli miðvega milli
Lafranz-eyjar (St. Lawrence Island) og suðr-höfða Chukotski-skaga í
Síberíu, og sker hún þar 172° vestrlengdar (fr. Gr.); en frá þeim punkti,
þar sem in síðast nefnda lína sker 172°, skal enn hefja nýja línu og stefna
meira í vestr en suðr, svo að hún falli miðvega milli eyjanna Attou og
Kopar-eyjar (Copper Island) unz hún sker 193. mælistigalínu vestrlengdar
(fr. Gr.), og mynda þá línur þær, er svo eru dregnar, sem nú hefir fyrir
sagt verið, endimörk heimsálfanna á þessu svæði, svo að Asía á land alt
fyrir vestan, en Alaska fyrir austan.
2. _Höf._
Af þeim höfum, er að Alaska liggja, er miklu stœrst haf það, er kallað er
Norðrhafið Kyrra (North Pacific Ocean), en það er norðrhlutr úthafs þess
ins mikla, er liggr milli Austrálfu og Vestrheims, og nefnist það einu
nafni Kyrra-Hafið (Pacific Ocean; The Pacific).
Sá hlutr hafs þessa, er liggr fyrir norðan 56° n. br. milli Kadíak-eyjanna
að vestan og Alexanders-eyja að austan, nefnist Alaska-flói (Gulf of
Alaska).--Fyrir vestan Kadíak-eyjar er talið að Norðrhafið Kyrra nái að
Alíaska-skaga og að eyja-kraga þeim inum mikla, er gengr í boga frá suðrtá
Alíaska-skaga alt vestr undir Asíu-strendr og nefnist einu nafni Aleuta-
eyjar.
Bærings-haf (Bering Sea) liggr milli Alaska og Asíu fyrir norðan Aleuta-
eyjar.
Þaðan má sigla gegn um Bærings-sund (Bering Strait) norðr í Íshafið nyrðra
(Arctic Ocean).
3. _Firðir og flóar._
Alaska er alt mjög vogskorið; segir nokkuð gjörr frá því hér á eftir, er
lýst er ströndunum. Hér skal að eins nefna ina stœrstu flóa.
Þar sem saman kemr landsuðrhorn Alaska og Bretlands-eignir gengr Portlands-
fjörðr (Portland Channel) inn í landið til landnorðrs; eiga Bretar land
fyrir austan og sunnan, en Alaska fyrir vestan. Þessi fjörðr gengr inn úr
Norðrhafinu Kyrra.
Norðr af Kadíak-eyjum gengr skagi mikill í sjó suðr og heitir Kenai-skagi.
Fyrir austan hann er breiðr flói, og nefnist Chugāch-flói (Ch. Gulf)[1] en
öðru nafni Vilhjálms-flói (Prince William Sound), og er það hentara nafn.
Cooks-flói (Cooks Inlet) gengr í landnorðr fyrir vestan Kenai-skaga. Það er
geysi-mikill flói: 180 knúta langr eða 200 knúta, ef með er talinn fjöðr
sá, er gengr austr úr botni hans; mynnið er 50 knúta breitt; en breiðastr
er hann þar, sem Chugāchik-fjörðr gengr austr úr honum, en Kamishak-vík
vestr; það er skamt fyrir innan mynnið; þar verðr hann 150 knúta breiðr.
Þessir flóar ganga inn úr Alaska-flóa.
Fyrir vestan Alíaska-skaga gengr inn úr Bærings-hafi mikill flói og stór,
og heitir Bristol-flói (B. Bay). Þar fyrir norðan gengr Kouloulak-vík (K.
Bay); þar fyrir norðan Kuskoquim-fjörðr (K. Bay); út í hann fellr
Kuskoquim-fljót. Austr af Lafranz-ey gengr stórmikill flói inn í landið og
kallast Nortons-grunn (Norton Sound); norðr og austr úr því gengr annar
flói minni og heitir Nortons-flói (N. Bay). Þessir eru stœrstir flóar, er
skerast inn í landið úr Bærings-hafi.
Úr Íshafinu skerst inn í útnorðrhorn landsins flói sá, er Kotzebue-grunn
(K. Sound) nefnist. Suðr úr því gengr Góðrarvonar-flói (Good Hope Bay) og
nokkrir smærri firðir.
[Um firði og flóa sbr. "5. Strendr og hafnir" hér á eftir.]
4. _Eyjar og eyja-klasar._
Út af Portlandsfirði liggr allstór eyja sunnan við fjarðar-mynnið; heitir
sú Karlottu-ey og eiga hana Bretar; þá ey eiga þeir nyrzta við Kyrra-Hafs-
strendr. Norðr af henni liggr Valaprinz-ey (Prince of Wales Island); milli
þeirra er sund það, er Dixons-sund heitir. Þar norðr af liggr klasi mikill
eyja, og heita Alexanders-eyjar einu nafni; til þeirra telst Valaprinz-ey.
Auk hennar má af þeim nefna Baranoff-ey og Chichagoff-ey; fyrir norðan
Chichagoff-ey, milli hennar og meginlands, gengr Cross-sund.
Austr af Alíaska-skaga milli 151° og 158° vestrlengdar (fr. Gr.) er
eyja-klasi, og heita Kadíak-eyjar (Kadiak Archipelago) eftir stœrstu
eyjunni, Kadíak. Um þá ey mun síðar gjörr talað í bœklingi þessum, því
þessar eyjar verða að nokkru leyti höfuðinntakið í miklum hlut hans. Milli
Kadíak og Alíaska-skaga gengr Shelikoff-sund. Norðr af Kadíak liggr
Afognak; hún er nokkru minni.--Eyjaklasi nokkur minni liggr í suðr og vestr
frá Kadíak-eyjum, en austr af suðrtá Alíaska-skaga, og heita Shumagin-
eyjar. Þar er fiskafli beztr í heimi.
Fram af Alíaska-skaga liggr Unimak-ey, og Ófœru-sund (Fals Pass) milli
hennar og meginlands, og eyja-klasi þar vestr og suðr af, suðr að
Amukhta-sundi (172° vestrl. fr. Gr.), og eru kallaðar Fox-eyjar; eru meðal
þeirra Unalaska og Umnak-ey. Eldfjöll eru á sumum af eyjum þessum. Gegn um
sundið fyrir sunnan Unimak-ey er bezt leið fyrir skip að sigla inn í
Bærings-haf.--Vestr frá Amukhta-sundi og vestr að 180° vestrlengdar eru
eyjar þær, er nefnast Andreanoffski-eyjar; þær eru um 30 talsins.--Frá 180°
til 185° vestrl. er enn eyja-klasi, og heita þær eyjar Rottu-eyjar eðr
Völsku-eyjar (Kreési); þeirra er stœrst Rotta eðr Rottu-ey (Kreésa).--Fyrir
vestan 185° og vestr fyrir 187° vestrl. liggja eyjar þær, er Blijnie-eða
Blizhni-eyjar heita.
Þessir 4 eyja-flokkar: Fox-eyjar, Andreanoffski-eyjar, Rottu-eyjar og
Blizhni-eyjar, nefnast allar saman einu nafni Aleuta-eyjar.
Fyrir vestan Aleuta-eyjar, í norðr og vestr frá Blizhni-eyjum, eru
Formanns-eyjar (Kommandórski Islands). Þær liggja nær 193° vestrl. og á 55°
norðrbreiddar. Þeirra austust er Kopar-ey (Copper Island); en Attou er
vestust af Blizhni-eyjum; falla takmörk Alaska og Asíu miðvega milli eyja
þessara, svo að Kopar-ey og inar aðrar Formanns-eyjar teljast með
Asíu.--Formanns-eyjar og Aleuta-eyjar og Shumagin-eyjar, það er: alt
eyja-beltið frá 158° til 195° (vestrl. fr. Gr.) kallaði Forster ferðalangr
(1786) einu nafni Katrínar-eyjar (Catherina Archipelago) eftir Katríni
annari Rússa-drotning. Eru þær stundum svo nefndar á eldri bókum.
Í Bærings-hafi verða fyrst fyrir Pribyloff-eyjar; þær eru fjórar; tvær inar
stœrri heita Páls-ey (St. Paul Island) og Girgis-ey (St. George Island).
Þar er þelselr mikill[2].--Norðr af Pribyloff-eyjum eru Maþeifs-eyjar, og
eru þrjár, en Maþeifs-ey (St. Mathew's Island) stœrst. Allar eru þær
fjöllóttar og óbygðar hrjóstugar og óbjörgulegar. Nokkrir Rússar voru þar
eftir skildir 1816, til að safna selskinnum um vetrinn; fórust þeir úr
harðrétti. Hinseginn segja þó hvalveiða-menn, og leggja trúnað á, að
Maþeifs-ey sé full af hvítabjörnum. Fyrir því kalla sjómenn hana Bjarney
(Bear Island). Eigi rekr hafís að mörkum suðr fyrir Maþeifs-eyjar, og
aldrei svo mikið, að nokkurn tálma gjöri siglingum, enda eigi um hávetr.--
Væri lína dregin frá Thaddeus-höfða (á Kamchatka-ströndum) til Maþeifs-
eyja, og þaðan austr og suðr í tangann norðan við Bristol-flóa, þá markar
sú lína fyrir því sviði, er hafís rekr lengst í suðr.--Austr frá Maþeifs-
eyjum er Núnivak-ey; gengr Etolin-sund milli hennar og megin lands. Núnivak
er allstór eyja, en eigi er hún könnuð enn.--Í norðr frá henni er
Lafranz-ey (St. Lawrence Island) og er vestr af Nortons-grunni.--Í
Bærings-sund miðju liggja eyjar þær tvær, er Diomedes eru kallaðar.
Takmarka-lína Asíu og Alaska liggr miðvega milli þeirra. Heitir sú eyjan,
er Asíu heyrir og Rússar eiga, Ratmānoff eðr Imāklit, en hin, er Alaska
heyrir, heitir Krúsenstern eðr Ingāliuk.
5. _Strendr og hafnir._
Alaska er land mjög vogskorið og eyjum þakið hafið með ströndum fram
umhverfis landið. Hér er ekki rúm til að rita neitt það, er lýsing megi
heita, hve stutt sem vera skyldi, á ströndum landsins, höfnum og sundum;
heldr verðr hér að drepa að eins á fátt eina á svæðinu umhverfis Alaska-
flóa, einkum á það, er þýðing getr haft að þekkja fyrir þá, er vilja gjöra
sér hugmynd um Kadíak-eyjar sem nýlendu-stað; en allr Alaska-flói liggr
bezt við siglingum og samgöngum frá Kadíak á sjó.
Það eru eitthvað 1100 eyjar í klasa þeim, er ber nafnið Alexanders-eyjar.
Nokkrar hafnir eru á landinu upp af Alexanders-eyjum og eru þar Bandaríkja-
vígi (Forts; United States military posts). Sund eru óteljandi milli
eyjanna og flest skipgeng, svo að aðalsamgönguvegr af náttúrunnar hendi er
þar sjórinn; kvað mega koma við hvar sem vill á ströndum eyjanna og
landsins og fara frá einum stað til annars innan um þær allar án þess að
stíga fœti á land. Syðsta og austasta höfn í Alaska er á 54° 46' n. br. og
130° 35' v.l. fr. Gr.; heitir hún Tayakhōnsiti Harbour; þar er þorp eitt og
búa þar Tongas-Indíánar; þar er og Bandaríkja-vígi, er Tongas heitir
(United States military post of Fort Tōngas); það var reist 1867.--Þá er
skógr var höggvinn til að fá timbr til virkis-gjörðarinnar, voru þar feld
gul Sedrus-viðar-tré (yellow cedar), átta feta að þvermáli. Eyjar þessar
eru fjöllóttar og hálendar, og hlíðarnar þaktar inum ágætasta viði, þeim er
beztan getr, frá sjávar-máli og upp eftir alt að 1500 fetum yfir sjávar-
mál.--Á 55° 27' n. br. og 132° 01' er sögð höfn góð og innsigling auðveld.
Þar eru gnœgtir of inum bezta viði.--Norðan og vestan til á Wrangel-ey er
höfn sú, er nefnist Etolin Harbour á 56° 31' 30"; þar er Banda-ríkja vígi
og heitir Fort Wrangel; þar eru kola-námar og gnœgð timbrs.--Á Baranoff-ey
er þorp það, er Sitka heitir. Þar var landstjóri Rússa meðan þeir áttu
landið. Þar eru hafnir góðar, önnur vestanvert, en hin austanvert á eynni,
báðar góðar, en in eystri þó betri. Sitka stendr undir fjalli því, er
Vostōvia heitir; það er 3216 feta hátt og er á 57° 03' 23" n.-br. og 135°
12' 57" v.-l. fr. Gr. 1867 voru þar 968 íbúar í bœnum, og voru 349 þeirra
Rússar, en hinir Indíánar og kynblendingar eðr Kreólar; svo nefnast afkvœmi
þau, er Rússar gátu við innlendum konum í Alaska. Þar var þá stjörnu-hús,
kyrkja og spítali. Hús eru flest öll bjálka-hús (log-houses) og steind
daufgulum lit. Kyrkjuturninn er steindr grœnum farfa og svo á lit sem
steinn sá, er emeraldus heitir, (það er fémætr steinn). Svo segir Dall
Alaska-fari, að þá er hlíðarnar þaktar myrkgrœnum skógi og grösugar eru í
framsýni, en bœrinn í násýni, að sjá úr vestrhöfninni, þá sé þar fagrt yfir
að líta og svo einkennilegt, að hvergi muni neitt sviplíkt geta annars
staðar í Ameríku.--Sögunarmylla var í nánd við bœinn og gekk með eimkrafti.
Baranoff-ey má heita ókönnuð enn að mestu; er jarðvegr svo mýrlendr og
skógar svo þykkir, að torveldlegt þykir og eigi háskalaust að kanna eyna.
1867 var um 1000 manns á eynni, þriðjungr Rússar, en hitt kreólar og
Indíánar. Mjög er vætusamt á öllum eyjum þessum; en þá er sól sér og
góðviðris-dagar eru, kvað land vera ið fegrsta á að líta og alþakið þéttum
skógi milli fjalls og fjöru; er útsýni og landslag víða ið yndislegasta.[3]
Hafströndin vestr frá Cross-sundi og vestr að Vilhjálms-grunni (eðr
Chugāch-flóa) er sæbrött og öll viði vaxin, vogskorin mjög, smáfirðir og
fjöllótt að, en samstaðar langir firðir, mjóir og þröngir. Eigi er þorskr í
þeim öllum, en nóg heilagfiski (fliðrur 10 fjórðunga og yfir það) og als
konar tegundir af laxi og silungi, svo öll vötn eru af þeim krök og kvik.
Fjöllin eru 5 til 6 þúsund feta há og alþakin þéttum skógi; en skógarnir
eru fullir af als konar berjum. Þar eru fjölmargir birnir, refir, íkorn,
merðir og margt annara dýra.
Vilhjálms-grunn er áðr nefnt; það skerst inn fyrir vestan 146° v.-l. fr.
Gr. og nær botninn vestr að 149°. Milli þess að austan og Cooks-flóa að
vestan liggr nes eitt breitt og mikið og fjöllótt, og heitir Kenai-skagi.
Vilhjálms-grunn er þakið eyjum stórum og smám, en firðir skerast úr því í
landið inn á alla vegu. Merkastar eyjanna eru: Montagu, Hinchinbrook,
Knight og Hawkin. Eyjarnar í Vilhjálms-grunni og strendrnar umhverfis það
eru þaktar ágætum skógi. Rússar höfðu þar skipgjörðar-stœði, þá er þeir
áttu landið, og gjörðu þar mikinn fjölda skipa. Veðrátta er þar óblíðari á
vetrum og kaldari, en á ströndunum suðr og austr af. Þó er ávalt allr snjór
upp tekinn í júní. Fiskr kvað þar nœgr og timbr ið ágætasta; ber vaxa þar
margvísleg og korntegund þarlend, Elymus (melr?), og gnœgð bauna vex þar af
sjálfu sér vilt.--Innuit-ar eru þar víða; það fólk er sama ætternis sem
Grœnlendingar, og segir gjörr frá því síðar.
Kenai-skagi er vogskorinn mjög á allar síður. Sumstaðar eru þar hafnir
góðar. Fjöll eru há á skaganum og sumstaðar jökull efst; en þar fyrir
neðan, niðr fjalshlíðarnar og undirlendið slétta fyrir neðan, er alt þakið
þéttum skógum og stórum, og er viðr þar góðr. Eyjar eru nokkrar með
ströndum fram. Syðsti höfði skagans og vestasti heitir Elizabetar-höfði;
gagnvart honum að vestan er Douglas-höfði. Í mynni flóans milli höfðanna
eru eyjar þær, er Bersvæðis-eyjar (Barren Islands) heita, klettóttar og
gróðrlausar; má inn sigla beggja vegna eyjanna. Austanmegin skerst inn úr
Cooks-flóa Port Chatham rétt fyrir norðan Elizabetar-höfða; þar upp af er
bygð sú, er Alexāndrowsk heitir; norðar skerst inn Grahams-fjörðr (Port
Graham) eðr öðru nafni Engla-höfn (English Harbor); þar fyrir norðan er
Chugāchik Bay; þar er höfn góð undir Kolhöfða (Coal Point). Þar er gnœgð
steinkola; þau eru með inum beztu að gœðum og lagið 7 feta þykt. Kola-lag
þetta hygg ég að liggi í jörðinni með allri austrströnd Cooks-flóa. Það
kemr fram aftr við Akkerishöfða (Anchor Point), og enn aftr fyrir norðan
hann. Ég sá hvervetna kol í jörð í bökkunum norðr af Nikulásar-vígi, er ég
skoðaði og tók sýnishorn af. Lagið var þunt þar, en ég hefi ástœðu til að
ætla að það verði þykkvara, er fjær dregr; en við höfðum engin föng né tíma
til að kanna það. Undan Nikulásar-vígi er höfn og kölluð St. Chrysostom
Harbour, en það þýðir Gullmunns-höfn; þar lág skip vort, er vér dvöldum að
Nikulásar-vígi. Höfnin er rétt undan mynni Kaknu-fljóts, og er gullsandr í
fljótinu; er því réttnefni þó höfnin sé kölluð Gullmynnis-höfn. Þessa megin
Cooks-flóa er graslendi mikið, einkum er upp undir fjöllin dregr, en skógar
ágætir á undirlendinu. Víðast er útfiri mikið við strendr.--Að vestan er
undirlendi minna, en land gott; þar eru færri hafnir.
þá er Cooks-flóa sleppir, er suð-austr-ströndin á Alíaska-skaga hlykkjótt,
óslétt, sumstaðar hálf-hrjóstrug, en víðast, einkum syðst, frjólend, vaxin
grasi og viltum korntegundum, mestan part skóglaus, nema smákjarr, skorin
óteljnadi fjörðum, víkum, vogum og þrongum sundum, meiri og minni. Víða er
hún klettótt, einkum nyrzt Helzti fjörðr, er ég hirði hér að greina frá, er
Katmai-fjörðr í beint vestr að kalla frá norðrhöfða Kadíak-eyjar. Á vatni
einu skamt þar frá finst steinolía, og flýtr hún sem þykk brá á vatninu.
Sýnishorn af henni var fœrt efnafrœðingunum við SMITHSONIAN INSTITUTION og
rannsökuðu þeir hana. Hafi sýnishornið verið trútt, þá er olía þessi betri
en öll sú olía, er finst í austr-ríkjunum, með því hún logar fult eins vel,
er eins drjúg, en hefir þann eiginleik, að hún er eigi hraðkveyk
(_explosiv_); en þann eiginleik fær in venjulega steinolía fyrst við
hreinsun af mannavöldum.
Milli Kadíak-eyja og meginlands liggr Shélikoff-sund. Svo er að sjá, sem
eyjar þessar sé að jarðmyndun til framhald fjall-beltis þess, er myndar
Kenai-skaga, enda þótt breitt hafsund liggi þar á milli. Klettarnir eru
líkir, og lögunin, jarðmyndunin og stefnan yfir höfuð sú sama. Hvervetna
þar, sem heldr er í skjóli fyrir veðrum, eru eyjarnar vaxnar miklum, fríðum
og ágætum skógi. Og á þessum eyjum og ströndum Cooks-fjarðar er mikið af
inu bezta yrkingarlandi; haglendi er ei unt betra að kjósa, en það er hér
getr. Á dögum Rússa var bygð hér eigi all-lítil og var í rauninni á
Kadíak-ey aðalaðsetr allrar Alaska-verzlunarinnar. Höfuð-þorp eyjarinnar er
nefnt St. Paul eðr Páls-borg, en stundum _City of Kadíak_ þ.e. Kadíaks-
borg. Páls-borg er að flestöllu merkari miklu, en Sitka, eða var það að
minsta kosti meðan Rússar áttu landið; enda liggr Kadíak betr en nokkur
annar staðr við verzlun og hefir flesta hluti til þess að verða höfuðból
als lífs í Alaska, er stundir líða, þótt nú sé þar fátt um að vera. það
voru eingöngu pólitiskar ástœður, er leiddu Rússa til að hafa höfuðbœinn
sem syðst og einkum sem austast og setja hann því í Sitka. Viðey (Woody
Island) liggr rétt við bœinn á Kadíak. Þar er ísgeymslu-hús og
sögunarmylla. Norðr af Kadíak liggr Afognak, stór eyja og að öllu lík
Kadíak, nema að sínu leyti enn fjöllóttari, og skógr er þar stœrri. Austr
af Afognak er Marmot-ey. Milli Afognak og Kadíak er Skógey (Spruce Island);
þar er viðr meiri og betri en á nokkurri annari af Kadíak-eyjum. Margar
eyjar stórar og smár liggja kring um Kadíak á alla vega; nefni ég meðal
annara Þrenningar-eyjar (Trinity Islands) fyrir sunnan suðrtána. Ukamok-
eðr Chirikoff-ey telst og með Kadíak-eyjum; hún liggr til suðrs og lítið
eitt til vestrs frá Þrenningar-eyjum. Á Ukamok hafði rússneska kompaníið
sölubúðir; þangað flutti það á eyjuna dýr það, er á ensku nefnist _marmot_,
en á lærðra manna máli SPERMOPHILUS PARRYI (Danir kalla það "murmeldyr");
það er eins og bjórinn [bifrinn] af flokki þeim, er SCIURIDAE nefnast af
kyni gnagdýra (RODENTIA). Mætti kalla það bjórbróðr (eða fjallrottu). Skinn
þess er ágætt og er fémætt. Þetta dýr fjölgaði svo ótt á eyjunni, að það
varð atvinna fyrir fjölda fólks að verka skinn þeirra.
Sémidi-eyjar liggja í suðr og vestr frá Kadíak, en í norðr og vestr frá
Ukamok.--Meðal Shumagin-eyja eru tvær eyjar bygðar, Pópoff og Únga. Á Unga
eru tvær góðar hafnir; heitir in nyrðri Kola-höfn (Coal Harbour); þar er in
mesta ofrgnœgð af þorski. Þar er almennr samkomustað fiskimanna. Sunnan á
eyjunni er Delaroff fjörðr; þar er bygð. Nálega vestr beint frá Únga er á
landi í Alíaska bygð sú, er heitir Belkōfski eðr Íkornssveit (Squirrel
Settlement). Það er enginn staðr hér til að lýsa þeim aragrúa eyja smárra
og stórra, kletta og skerja, er þekr hafið við strendr Alíaska-skaga.--
Vestr af syðsta odda skagans liggr Únimak-ey. Milli hennar og meginlands
liggr Rif-sund (False Pass); frakkneskir siglingamenn höfðu lengi sagt það
skipgengt, en það reyndist lygi, og eru tómir boðar og rif.
Það eru fyrr nefndir inir helztu flokkar af Aleuta-eyjum. Bygð er þar helzt
á eyjunum Unalāshka, Akhūn, Tigālda, Úmnak, Amlia, Atka, Adākh og
Attū.--Helztar hafnir eru á Unalashka: Iliuliuk eðr Formanns-höfn
(Captain's Harbour), Bjórfjöðr (Beaver Bay) og Mākushin-fjörðr.
Í Formanns-höfn (á Unalashka) er þriðja bygð merkust í Alaska og stœrst,
næst Páls-borg (á Kadíak-ey) og Sitka. Síðan Banda-ríkin keyptu landið
hefir kviknað þar verzlun töluverð; leggja skip þar tíðum að, til að skipta
vöru, fá vatn, við og nýja ávexti og kálmeti.
Á Attū er höfn, er heitir Chichagoff Harbour. Sé sögum að trúa, þá er þar
leyni-verzlun eigi all-lítil (_smuggling_). Safalaskinn frá Síberíu og
ópíum frá Kína eru hátt tollaðar vörur, er þær eru fluttar inn í Banda-ríki
frá útlöndum, en ótollaðar eftir að þær eru komnar inn í landar-eign
Banda-ríkja. Því eru safala-skinn og ópíum flutt á laun til Chichagoff
Harbour, en seldar þaðan aftr með stórum hagnaði til ýmsra staða í
Banda-ríkjum.
Þess er áðr getið, að þelselr veiðist í Bærings-hafi. En sakir rúmleysis
hér og fyrir því, að það þykir minna um vert, að minsta kosti í bráð, verðr
hér að sleppa að lýsa nákvæmara vestrströndinni fyrir vestan Alíaska-skaga
og eyjunum í Bærings-hafi. Það verðr hœgt að rita langa lýsing og nákvæma á
þeim eins og hverjum öðrum parti af Alaska, er þörfin sýnist þess að
krefja.
6. _Fljót og ár._
Vötn þau, er falla út í Alaska-flóa, eru miklu minni, en hin, sem í
Bærings-haf falla. Fjöllin taka víðast svo að segja fast að sjó fram að
sunnan; en vatnsmegin það, er fær afrás í ánum, dregst saman langt uppi í
meginlandinu og ryðr sér þaðan veg til sjávar gegn um fjöllin um þröng
gljúfr og í fallháum fossum. Mikið af regnvatninu frýs á inum afarháu
fjöllum og nær fyrst til sjávar sem jökulvatn þegar þýður eru.
Austast vil ég nefna Stikine-fljót. Það er af því kunnugt, að gull hefir
grafið verið á bökkum þess; eigi eru þó gullnámar þessir allríkir og liggja
þeir ofarla við fljótið í Bretlands-eignum, áðr en það rennr inn í
Alaska.--
Á 60° 17' n. br. og 145° 20' vestrlengdar frá Grœnuvík liggr mynni fljóts
þess, er heitir Atna eðr Koparfljót (Copper River); það fellr í tveim
kvíslum í sjó út og verðr eyri allmikil í milli kvíslanna þrjátíu mílur á
lengd, en 4-5 mílur á breidd; eyri þessi er alþakin pílviðar-skógi
(_willow_). Í norðvestr-kvíslinni er aðal-vatnsmeginið; þar nærri er
Innuita-þorp, og heitir Alāganik. Fljótið fellr nokkurn veg um slétt
undirlendi áðr það fellr í sæ út; á því undirlendi er fjöldi stöðuvatna.
Lítið er kunnugt um farveg fljóts þessa, það er víst sé; er sagt það falli
um gljúfr og fjöll lengra uppi í landinu og sé stórir skógar beggja vegna.
Eigi vita menn með fullri vissu, HVAR það er, sem koparnámr sá er, sem
fljótið tekr nafn af. Koparinn finst þar í ávölum, vatnsleiktum klumpum,
líkt og á sér stað við Lake Supirior; en það þykjast menn fara nærri un, að
koparinn sé innan 100 mílna (enskra) frá sjó. Indíánar selja hann, en leyna
náma-stöðvunum. 1741 fann Bæringr eðr fylgdarmenn hans brýnistein, er
koparknífar höfðu vorið á hvattir. Eigi þektu inir þarlendu menn járn
fyrri, en erlendir menn tóku að verzla við þá; en leiknir voru þeir í að
gjöra ónetta knífa úr kopar.
Í Vilhjálms-grunn falla engar ár að marki, en í Cooks-flóa innanverðan
fellr mikil á, er heitir Knik eðr Eldvatn (Fire River). Það fljót er
skipgengt 12 mílur frá sæ upp; en úr því breikkar það og grynnist. Rússar
kváðu hafa farið á skinnbátum upp eftir því, unz þeir komu að vatni því, er
You have read 1 text from Icelandic literature.
Next - Alaska - 2
  • Parts
  • Alaska - 1
    Total number of words is 4345
    Total number of unique words is 1629
    29.0 of words are in the 2000 most common words
    38.0 of words are in the 5000 most common words
    38.0 of words are in the 8000 most common words
    Each bar represents the percentage of words per 1000 most common words.
  • Alaska - 2
    Total number of words is 4450
    Total number of unique words is 1704
    29.6 of words are in the 2000 most common words
    36.4 of words are in the 5000 most common words
    36.4 of words are in the 8000 most common words
    Each bar represents the percentage of words per 1000 most common words.
  • Alaska - 3
    Total number of words is 3239
    Total number of unique words is 1265
    32.6 of words are in the 2000 most common words
    41.1 of words are in the 5000 most common words
    41.1 of words are in the 8000 most common words
    Each bar represents the percentage of words per 1000 most common words.
  • Alaska - 4
    Total number of words is 4397
    Total number of unique words is 1649
    31.0 of words are in the 2000 most common words
    39.7 of words are in the 5000 most common words
    39.7 of words are in the 8000 most common words
    Each bar represents the percentage of words per 1000 most common words.
  • Alaska - 5
    Total number of words is 4944
    Total number of unique words is 1798
    29.1 of words are in the 2000 most common words
    37.9 of words are in the 5000 most common words
    37.9 of words are in the 8000 most common words
    Each bar represents the percentage of words per 1000 most common words.
  • Alaska - 6
    Total number of words is 4867
    Total number of unique words is 1673
    27.1 of words are in the 2000 most common words
    35.4 of words are in the 5000 most common words
    35.4 of words are in the 8000 most common words
    Each bar represents the percentage of words per 1000 most common words.
  • Alaska - 7
    Total number of words is 1987
    Total number of unique words is 929
    32.6 of words are in the 2000 most common words
    40.6 of words are in the 5000 most common words
    40.6 of words are in the 8000 most common words
    Each bar represents the percentage of words per 1000 most common words.