Alaska - 6

Total number of words is 4867
Total number of unique words is 1673
27.1 of words are in the 2000 most common words
35.4 of words are in the 5000 most common words
35.4 of words are in the 8000 most common words
Each bar represents the percentage of words per 1000 most common words.
orðið einir íbúar landsins, sett sjálfir rétt með sér og ráðið lögum og
lofum, þ.e. myndað frjálst íslenzkt þjóðveldi, frjálst og fullmyndugt og
engum háð, að eins frjálst sambandsríki í voldugu og merku ríkja-sambandi,
eins og þeir geta, ef þeir vilja, í Alaska, svo að þeir missi einskis
annars í, við að fyrirláta fóstrjörð sína, en að leggja þar af sér hlekki
fornrar ánauðar,--ef þeir gera þetta, segi ég, ef út fluttir Íslendingar
geta endrreist þjóðveldi Íslands í nýrri og betri mynd í framandi og nýju
landi, er með tímanum gæti, ef til vill, orðið sakir landrýmis og landgœða
aðalaðsetr íslenzks þjóðernis í heiminum--eins og óneitanlega má verða í
Alaska--hvaða ástœðu munduð þér þá fœra móti útflutningi fólks frá Íslandi
til slíks lands, þér miklu þjóðernis og frelsis-vinir?--Hvers er þá í mist
við útflutninginn, ef vér höldum öllu því, er oss er kært og dýrmætt og
mikilsvert í andlegu tilliti, og flytjum það með oss þangað, er það má betr
þroskast, dafna og blómgast? Hvers er þá í mist, segi ég?--Jú, nokkurs er í
mist, segið þér; það er eitthvað óljóst, einhver töfrandi draummynd,
eitthvert lokkandi yndi og andans unaðr, er heillar vorar gagn-íslenzku
sálir, og sem þær mega hvergi finna nema á Íslandi--og í Kaupmannahöfn! Jú,
þar kom það! Þér sjáið ekki gegn um glámskygnis-gleraugu yðar ímynduðu
föðrlands-ástar, hvað það er? Ég skal segja ykkr það, dúfurnar mínar! Það
er: ekki flatti golþorskrinn; því hann getið þér flutt með yðr, ef yðr er
all-annt!--en það er ... danski krossin á rauða grunninum! Það er DANSKAN
og KONUNGS-VALDIÐ! Það eru hlekkirnir, sem rakkinn er orðinn svo vanr að
bera, að hann kann eigi við sig án þeirra. Þessi eru þau súrdeig, sem hafa
gagnsýrt yðar íslenzku sálir og gjört þær að illa dönskum súrmjólkr-sálum,
svo að alt, sem þér vitið og skynjið, er danskt. Þér kunnið ekki annað en
dönsku, og hana lélega. Þér kunnið ekki einu sinni að elska fóstrjörð yðar
nema upp á dönsku! Föðrlandsást yðar og frelsis-ást er ekki annað, en
pólitísk kredda, er þér lærðuð utan að af Dönum 1848; af frelsi þekkið þér
ekki annað, en danskt frelsi. Stjórnarskrá Dana er yðar œzta hugsjón, já
afgoð yðar, það vesala pappírsblað! Og þá má nærri geta, hvílíkir garpar
frelsisins þér séuð, þar sem þér hafið læert að elska frelsið af þeirri
þjóð, er aldrei þekti frelsi og aldrei vissi hvað það var, því Danir hafa
ávalt verið þrælar í anda. Það játa inir vitrustu og beztu menn sjálfrá
þeirra.[19] En óþarfi er um það að þreyta! Þeir, sem heima verða eftir, og
það yrði þó ávalt mestr hlutinn, að líkindum, þeir halda flagginu danska!
Það eru að eins þeir, er út flytja, sem segja við það skilið; en hinum, er
eigi fá slitið það frá hjartarótum sínum, er vænst að fara hvergi; enginn
óskar eftir þeim!
En það er eigi nóg með þetta. Það má sýna það frá víðsýnna sjónarmiði, en
frá sjónarmiði Íslands eins, nefnilega frásjónarmiði mannkynssögannar og
mannfrœðinnar (anþropologia), að útflutningar fólks sé í sjálfu sér
réttmætir og sé als herjar heimsnauðsyn. Verðr það þá ljóst, að ef þeir eru
það (eins og þegar skal sýnt), þá VERÐR eigi við þeim spornað. Er því bæði
illmannlegt, ókristilegt og heimskulegt, að leggja ámæli á vestrfara. Það
er illmannlegt og ókristilegt af því að þeir hafa, eins og vér höfum sagt,
siðferðislegan rétt á, að flytja út; og enginn meiri réttr er til að hamla
þeim frá því, heldr en til þess að innleiða ættstétta-skipun ("kasta"-
skipun) eðr átthaga-band (_"stavnsbaand"_); en það er ókristilegt að ámæla
meðbrœðrum sínum að sakleysi. Það er heimskulegt, að ætla að stöðva þá rás,
sem er bundin lögmáli mannlegs eðlis, eins og það opinberast í sögunni; það
er eins heimskulegt, eins og að ætla að stöðva flóð og fjöru:
_"Rusticus exspectat dum defluat amnis; at ille labitur, et labetur in
omne volubilis aevum!"_
Þar að auki er það óhyggilegt; ást vestrfara til ættjarðar sinnar er
ugglaust svo sterk, að slík ámæli geta eigi komið inn hjá þeim kala til
hennar; en það er ugglaust, að hver sá pólitiskr flokkr heima, sem gjörir
sig sekan í þeirri heimsku og því ranglæti, að leggja ámæli á vestrfara,
hann ætti eigi að búast við samhuga eðr styrk frá þeim, hvorki
siðferðislegum né öðruvísi; og er það óhyggilega gjört að hrinda þannig frá
sér með ranglæti og hranaskap miklum flokki landa sinna, er í mörgu tilliti
geta verið til beinlínis og óbeinlínis styrktar og aðstoðar. Þetta vildi ég
óska að allir hefðu í huga heima; það er ómögulegt að neitt gott geti leitt
af því, að leggja ámæli á bak vestrförum; það sjá allir. En margt getr ilt
af því leitt, og ætti það að vera nœg ástœða til, að unna þeim réttlætis og
sannmælis. Vér erum svo fámennir, Íslendingar, að inn sterkasti flokkr má
eigi við því, að hrinda neinum frá sér, er ætti og vildi flokkinn fylla og
styðja. Þetta hefir höfðingi ins frjálslynda flokks vors séð, og þó hann
hafi eigi mikinn gáning á útflutningi fólks, þá hefir hann varazt í ritum
sínum að leggja ið minsta áfellis eða rýrðar-orð á vestrfara; væri vel, að
allir þeir, sem þykjast frelsismenn heima, vildu vera eins samvizkusamir og
réttsýnir í þessu efni; þeir hafa, því miðr, eigi allir verið það hingað
til.
* * * *
Veraldarsagan og mannfrœðin sýna oss, að inar norrœnu þjóðir eru inir
eiginlegu ERFINGJAR JARÐRÍKISINS, ef svo mætti segja.
Þetta er eigi nein tilviljun; það má meðal annars telja sér í lagi þrjár
aðal-ástœður til þess:
I.--Maðrinn þarf að eiga í stöðugri baráttu við náttúruna, ef hann á að
halda þrótti sínum og manndómi óskerðum; alveg á sama hátt, eins og
heljarmennið þarf aflraunir af og til, ef hann á að halda fimleika og
hraustleika sínum óskerðum. Hjá meira eða minna mentuðum þjóðum eða hjá
þjóðum, er meðtœkilegar eru fyrir mentun, er atorku-semi og dugnaðr
fólksins oftast í öfugri tiltölu við frjósemi jarðarinnar í þeim löndum er
þær byggja. Því betra sem landið er, því daufari, latari og ónýtari er
þjóðin; því hrjóstrugra sem það er, því atorkusamari og harðsnúnari er
þjóðin. Berum saman Holland og Ítaliu, Ísland og Spán. Í norðlægu löndunum
er loftslag óblíðara og harðara, jarðvegrinn er ófrjórri, en í heitu
löndunum. Þessi óblíða náttúrunnar REKR manninn til að vinna meira og hafa
forsjá á efnum sínum. Þetta styrkir þrótt hans og íhugunar-semi.[20] Í
hitabeltis-löndunum og öðrum heitum löndum, þar á móti, leggr náttúran
nærri því alla hluti upp í hendrnar á manninum; hann vinnr lítið erviði
þar, af því að þörfin rekr hann eigi til þess og því úrættist hann og
veiklast. Þess vegna er öll veraldarsagan saga um innhlaup frá norðri.
II.--Óblíða náttúrunnar í norðrlöndum heimsins neyðir manninn til að sjá
fyrir vetrar-híbýlum; menn verða að lifa meira innan-húss og saman;
samlífið innanhúss vekr og elr tilfinningar hjartans; það tengir
heimilisfólkið nánari böndum og eykr ást hjóna og ættfólks og allra
skyldmenna. Þetta ásamt góðri heilsu og þrótti, sem norðrbúinn nýtr sem
afleiðingar af einfaldri, nærandi fœðu og svölu, hreinu og hollu loftslagi,
veldr því, að þessar þjóðir eru frjósamari, en suðrlanda-búar; börnin verða
fleiri að tölu að jafnaði. Því vex íbúa-talan skjótlegar þar, en meðal
annara þjóða, er sunnar byggja.
III.--Samfara þessu rekr löngunin eftir léttu lífi og hœgu stöðuglega fólk
að norðan suðr eftir; og þannig er stöðugr straumr í mannkyninu frá norði
til suðrs. Þetta hefir ávalt svo verið; þannig óð inn ariski kynflokkr inn
á Indland í myrkri fornöld, áðr en sögur hófust og lagði undir sig ina
innlendu þjóð.--Þannig átti ið sama sér stað í Norðrálfunni, áðr sögur
hófust; og frá því innhlaupi er að rekja orsakirnar til ins tevtónska
eðlis, sem er svo ríkt í grísku og latnesku.--Þannig lögðu hjarðkonungar
frá norðri Egiptaland undir sig.--Þannig lögðu Makedónar undir sig Grikki,
er sunnar bjuggu.--Þannig kollvörpuðu inar norrœnu tevtónsku þjóðir inum
rómversku ríkjum.--Þannig steyptu fylgismenn Genghis Khans sér yfir þjóðir,
er suðlægari vóru.--Þannig lögðu Tartarar undir sig Sínland.--Þannig leggja
Englar undir sig Indland.--Þannig í Ameríku leggja norðr-ríkin suðr-ríkin
undir sig.--Og þannig mætti telja upp alla veraldarsöguna.
Það sýnist að vera ráðstöfun og regla guðlegrar forsjónar, að jafnskjótt
sem þjóðflokkr fer að úrættast og veslast upp sakir langvarandi aðsetrs í
suðrœnu loftslagi, skuli inn streyma nýtt fjör, táp og manndáð frá norðri.
Hingað til hefir þetta oftast orðið fyrir blóðugar styrjaldir og ófrið. En
hvað er eðlilegra, en að hugsa sér, að það megi eftirleiðis verða á
friðsamlegan hátt fyrir innflutning fólks? En að það verði á EINHVERN hátt,
virðist óumflýjanlega nauðsynlegt fyrir velferð inna suðrœnu þjóða.
Í inum siðferðislega heimi eða andans ríki svarar þetta til innhlaups
SKILNINGSINS eða skynseminnar í VILJANS ríki. Skilningrinn eða skynsemin
kemr og leggr viljann undir sig; þar við sefast og kœlast ástríðurnar, og
maðrinn verðr settari og íhugunarsamari í eftirsókn sinni að uppfylla óskir
sínar. Því inar norðlægu þjóðir hafa meira af SKYNSEMI eðr íhugun í
eðlisfari sínu; og inar suðrœnu þjóðir hafa meira af VILJA eðr girnd í sínu
eðli.
Sæl er því sú þjóð, er á að minsta kosti RŒTR sínar í inu fjarlæga norðri;
því þá getr in nauðsynlega endrfœðing eða uppynging þess hluta, er sunnar
er, átt sér stað smátt og smátt á friðsamlegan hátt og án þess að kollvarpa
þurfi með ofríki stjórnarháttum eðr konungs-stólum, ef alt er undir einni
og sömu stjórn. Fyrir því er það mjög svo œskilegt fyrir Banda-ríkin, að ið
nyrzta land þeirra byggist mentaðri þjóð. Þörfin á þessu er, ef til vill,
eigi svo brýn, rétt NÚ sem stendr, meðan innflutnings-straumrinn heldr enn
á fram frá Evrópu og þjóðin er enn svo ung og blönduð; en eftir fá hundruð
ára verðr þörfin komin; og ef norrœnn og mentaðr kynflokkr er gróðrsettr
þar NÚ, þá eykst hann og margfaldast; en alt það, er um of verðr af þeim
kynflokki, mun smám saman streyma suðr og fœra DÁÐ, ÞRÓTT OG KALT BLÓÐ eðr
STILLINGU til inna suðlægari íbúa.
Í þessum skilningi virðast því inir norrœnu (þ.e. norðlægu) kynflokkar (að
minsta kosti inir mentuðu) að vera LÖGARFAR þessa heims. Þeir eru eigi svo
mjög óðalsbœndr hans, eins og ERFINGJAR; þeir ná umráðum arf síns eða verðá
handahafar hans, setjast á óðal sitt, þá er þeir flytja suðr; en þá eru
þeir eigi lengr NORRŒNIR úr því; og eftir nokkra mannsaldra þarf nýjan
lífstraum norðan að aftr, og svo framvegis.
Ef Íslendingar næmu nú land í Alaska--segjum 10 þúsundir á 15 árum, og
fjöldi þeirra tvöfaldaðist þar t.d. á hverjum 25 árum, sem vel mætti verða
og ugglaust yrði í svo hagfeldu landi, þá væru þeir eftir 3 til 4 aldir
orðnir 100 miljónir, og mundu þá þekja alt meginlandið frá Hudson-flóa til
Kyrra-Hafs. Þeir gætu geymt tungu sína, aukið hana og auðgað af hennar
eigin óþrjótandi rótum, og, hver veit, ef til vill sem erfingjar ins mikla
lands fyrir sunnan sig, smátt og smátt útbreitt hana með sér yfir þessa
álfu, og endrfœtt ina afskræmdu ensku tungu.
Já, þetta sýnist ráðleysu rugl og viltir draumórar; og ég segi heldr eigi
að svo verði; en ég segi svo MEGI VERÐA. Það er ALSENDIS MÖGULEGT! Meira
segi ég eigi. Íslenzka og enska eru af sömu rótum runnar; og þó enskan sé
mannsterkari NÚ, þá höfum vér hvergi lesið það drottins lögmál, að hún
skuli svo verða að eilífu. Og, ef svo mættí um tungur segja, þá hefir sú
fagra íslenzka mær meira siðferðislegt afl, en in enska portkona, er lagt
hefir lag sitt við allar skrælingja- og skrípa-tungur þessa heims.--En svo
að enginn bregði mér um ópraktiskar skálda-grillur í svo mikilsverðu máli,
skal ég þess geta, að hugmyndin um þennan mögulegleika á sigri íslenzkunnar
er ekki mín, heldr heyrir til amerískum vísindamanni, er stundað hefir bæði
engil-saxnesku og norrœnu, þótt eigi sé málfrœði aðal-iðn hans.
Ég þykist nú hafa réttlætt vestrfarirnar bæði frá sérstaklegu og almennu
sjónarmiði. En sé svo, að vér hvorki höfum siðferðislegan rétt á að hindra
né GETUM hindrað vestrfarirnar, hvað er þá annað til, en að reyna að beina
straumnum í sem bezt horf, svo að sem bezt megi af leiða bæði fyrir þá, er
út flytja, og fyrir ina íslenzku þjóð yfir höfuð og fyrir mannkynið alt?
* * * * *
II.
NAUÐSYN ÍSLENZKRAR NÝLENDU.
Þegar á alt er litið, má segja, að til sé TVENS KONAR VESTRFARAR. Það eru
nl. fyrst og fremst einslyppir menn, karlar og konur, menn, sem fara úr
landi til að leita sér betri atvinnu, eða til að leita sér frama og
mentunar í framandi landi; menn, sem eigi eru öðrum böndum bundnir, en að
dvelja þar, sem þeim vegnar bezt, þar sem atvinna er nœgust og hentust
fyrir þá, eða þar, sem þeir af einhverjum orsökum una bezt lífi sínu og
högum; það eru "guðs og kóngsins lausamenn" í veröldinni, eins og ég og
mínir líkar. Slíkir farfuglar eru eigi bundnir við stað né stund, en flögra
hingað og þangað til að baða sig í sólskininu eða svala svala sér í
forsœlunni, rétt eftir því hvernig veðrið er og á þeim liggr. Það liggr í
augum uppi, að það er næsta torvelt að gefa margar almennar reglur um slíka
menn. Þó má þess geta, að fyrir karlmenn, er ætla að lifa sem daglaunamenn
í annara þjónustu, annað hvort við útivinnu eða iðnað, er útlitið til
atvinnu miklu lélegra nú, en verið hefir nokkru sinni áðr í Ameriku yfir
höfuð; og er því eigi ýkja-fýsilegt hingað í því tilliti; en þó er hér enn
betra yfir höfuð, en víðast í Evrópu. Fyrir námsmenn, er eigi geta eða
vilja unnið líkamlegu vinnu, að minsta kosti í byrjuninni, er alveg
óálitlegt hingað að koma. Ameríka hefir nóg af slíkum mönnum sjálf, og þarf
eigi að sœkja þá til Norðrálfu; enda hafa innlendir námsmenn það fram yfir
aðkomendr, að vera fœrir í málinu. Það er varla einn af hundraði, sem getr
brotið sér hér braut á þennan hátt; þar með vil ég eigi segja, að þeir sem
á einn eða annan hátt eru sérlegt afbragð að þekking eða gáfum geti ekki
fundið hér rúm fyrir sig við sitt hœfi. Slíkir menn eru alstaðar velkomnir;
en þeir eru svo--fáir! Hending, atvik og "hamingja," er vér köllum, geta
líka gjört á þessu undantekningar; en á það er valt að stóla.
Hinn hlutr vestrfara verðr fjölmennastr; það eru kvæntir menn og barna-
menn, menn með fjölskyldu. Það verðr ávalt valt líf og magrt til lengdar
fyrir þá, að ætla að lifa sem annara þjónar. Tilgangr slíkra manna er yfir
höfuð ugglaust sá, að verða sjálfum sér ráðandi, sjálfra sín menn í óháðum
kjörum; en það verðr yfir höfuð að eins með því, að taka sér land og byrja
búskap.
Það er eðlilegt, að menn frá sama landi, aldir upp í sama loftslagi, við
sömu störf og lífs-kjör, með sama máli og þjóðerni og venjum, þurfi sömu
skilyrði fyrir vellíðan og velvegnan á sál og líkama. Krafir nattúrunnar
neyða þá alla til að velja sér bólfestu í plássum með líku ytra
ásigkomulagi; en krafir andans vekja hjá þeim löngun og þörf til að búa
fremr saman við þá, er sömu andlegum skilyrðum eru bundnir, sem hafa sömu
endrminningar, sömu vini, kunningja og skyldmenni, sömu ættjörð kæra og
sama innihald andlegs lífs, heldr en að búa fjarri öllum, er skilja
minningar þeira, langanir og þrá, skilja sorg og gleði þeirra. Þetta veldr
nauðsyninni til að halda saman fyrir Íslendinga í framanda landi, myndar
nauðsynina á að finna stað, þar sem þeir geti búið nálægt hver öðrum, en
eigi á dreif innan um útlendinga--veldr í einu orði nauðsyninni á íslenzkri
nýlendu. Þetta á sér því fremr stað um Íslendinga, en aðra, sem fjall-
landa-búar unna ávalt, meir en aðrir, frelsi og fóstrjörð.[21] Og ástin á
fóstrjörðinni heimtar fullnœgju, eins og hver önnur eðileg og réttmæt
tilfinning í brjósti mannanna. En vestrfarinn, er eigi getr fullnœgt henni
beinlínis, fullnœgir henni bezt og eðlilegast með því að elska þeim mun
heitara þær dýrustu leyfar fóstrjarðarinnar, er hann hefr með sér flutt, en
það er þjóðernið. Þess vegna hangir fjallbúinn fastara en aðrir við
þjóðerni sitt, af því in meðfœdda ást á frelsi og óhá kemr honum til
hjálpar. Hann finnr það, að ef hann gefr upp þjóðerni sitt fyrir inu
útlenda þjóðerni, þá lætr hann það þjóðerni kúga sitt eigið. En þar rís
hugr hans og hjarta öndvert á móti. En vér erum fámennir, Íslendingarnir,
og verðum að halda saman ALLIR, ef vér viljum geyma þjógernið í framanda
landi. Þess vegna verðum vér að halda saman í EINNI nýlendu. En þjóðernið
geymist bezt í landi, sem í útliti, atvinnuvegum og loftslagi, þ.e. í öllu
eðlisfari er LÍKT voru forna fóstrlandi, þó BETRA sé. Ekkert huggar
fjallbúann eins og fjöllin hans. Hann á ekki heima á sléttunum, framar en
fiskrinn uppi á reginheiðum. Í fjöllunum finnr hann þá hvíld augans, er
andi hans þráir. Það er er ekki til neins að einsetja sér heima, að sakna
eigi fóstrjarðarinnar; slíkum góðum ásetningi þyrlar í burtu eins og reyk
fyrir vindi, þá er til þess kemr að reyna lífið á sléttunum. Það er ekki
til neins að ætla að láta skynsemina fara að rekja föðrlandsástina í sundr,
og sýna að hún sé á engu bygð. Sál vor er ekki gjörð af tómri, kaldri
skynsemi; í hjartanu býr önnur jafnborin systir hennar, sem heitir
tilfinning; hún er skörungr mikill og lætr aldrei sinn rétt að fullu. Ég
hefi reynt þetta; ég hefi eins mikið af skynsemi og fólk flest, og ég hefi
orðið að margvenjast því í lífinu, að beygja tilfinningar mínar, kann ske
stundum ofbjóða þeim. En alt á sín takmörk, þar sem á stendr: hingað, en
ekki lengra. Og ég hefi fundið það rœtast hér.--Það er enn satt, sem Óvíð
gamli segir:
Eigi veit ég hverjum
alla dregr
ættjörð unaðs-böndum
og sínum sín vera
sonum leyfir
óminnugum aldrei.[22]
Ég veit SVO mikið um þetta "Nescio quid," að það er sterkt afl og strangt,
og líklega fæstra fœri að brjóta á bak aftr.
En hví skyldu menn og reyna að pynda og plága sjálfa sig, ef þeir fá við
því gjört?
Ef vér höfum fundið land, sem samsvarar kröfum vorum og þörfum, og þar sem
vér getum fundið svo líka ímynd fóstrjarðarinnar, sem orðið getr--þá sýnist
eigi hikunarmál fyrir þá, er út vilja fyltja, að velja það allir einhuga
til nýlendustaðar.
Ég vil nú nefna hér þær kröfur, er nanðsynlegt sýnist að gjöra til íslenzks
nýlendustaðar, og getr svo hver, sem vill, borið þær saman við lýsinguna á
Alaska hér að framan, og dœmt svo um, að hverju leyti það land fullnœgir
þeim.
* * * * *
III.
UM LANDVAL.
Ég skal þá hér fyrst stuttlega nefna þær kröfur, er gjöra verðr til þess
lands, er vera ætti hentugt nýlendu-stœði fyrir Íslendinga. Síðan skal ég
fara fám orðum um hverja fyrir sig.--Kröfur þær, sem reynsla vor hefir sýnt
og skynsemin segir oss að sé ómissandi, eru þá þessar helztar:
1º Að landið hafi frjálsa stjórn og sem rýmst borgaralegt frelsi að verða
má;
2º að það sé frjórra og bjargræðissamara en Ísland;
3º að þar sé gnœgð lands, er nýkomendr geti numið ókeypis;
4º að þar sé atvinna svo nœg, eða þá land svo agnsamt, að nýkomendr þurfi
eigi að liða nauð í byrjuninni;
5º að skógr sé nœgr til húsagjörða, smíða og eldsneytis; en þó eigi eintómt
skóglendi, er torvelt sé að yrkja;
6º að loftslag sé eigi alt of ólíkt því, sem á sér stað á Íslandi; vor og
haust blíðari, sumur lengri, en eigi miklum mun heitari, en þar er;
7º að landið liggi við sjó;
8º að það sé lagað til kvikfjárrœktar, og að atvinnuvegir sé yfir höfuð
eigi gjörsamlega allir aðrir og ólíkir því, er á sér stað á Íslandi.
Eigi nokkur von að vera í framtíð íslenzkrar nýlendu, þá er ómissandi:
9º að svo hagi til, að Íslendingar geti setið einir að landinu, án þess
framandi þjóðir dreifi sér innan um þá.
Ég skal nú fara fám orðum um hvert af þessum atriðum með tilliti til þeirra
Bandaríkja og þeirra hluta af Canada, er enn hafa til tals eða reynslu
komið sem framtíðarbústaðr Íslendinga.
1. Canada er að vísu allfrjálst land, en þó eigi lýðveldi, og eigi svo
frjálst sem Banda ríkin. En það varðar mestu um Alaska, að ef Íslendingar
næmu þar land nú, þá væru þeir in eina þjóð mentuð, er þar bygði, og gæti
því gjört sér öll lög sjálfir og haft sjálfir alla stjórn sína í höndum sér
að eins undir sambands-skránni.
2. Um þetta skilyrði er fátt að tala; það á sér víðast stað; þó hefir
nýlega til tals komið um Nova Scotia í Canada; en á því er mér vafi, hvað
það land hefir fram yfir Ísland.
3. Hvað snertir gnœgð ónumins lands, þá á hún sér að vísu stað í Canada; en
það land hefir þá annmarka, er sumpart gjöra það ófýsilegt fyrir efnalitla
nýkomendr, hvaðan sem þeir eru, sumpart alveg óaðgengilegt fyrir
Íslendinga. Sumarhitar eru þar geysi-miklir, vetrar harðir og grimmir,
skógr víða ofmikill svo landið verðr torvelt að yrkja, og jörðin sjálf víða
ófrjó. Atvinna er þar og víða fremr stopul. Í Wisconsin er eigi annað eftir
ónumið, en það úrkast úr landi, er enginn hefir viljað nýta. _Shawano-
county_ eða Ljósavatns-hreppr, sem það nú er kallað meðal landa hér, er
lélegt land, og þar að auki svo lítið, að um það er ekki að tala. Atvinna
er nú orðin svo ill og lítil og stopul í Wisconsin, að innlendir menn
margir eiga fult í fangi með að hafa ofan af fyrir sér þar, og sjá þá
allir, hvers nýkomendr eiga að vænta. (Þess bes að geta um atvinnu, að
einslyppar stúlkur geta alstaðar fengið góð laun í öllum Banda-ríkjunum.)--
Til Nebraska hefir helzt þótt vert að líta í þessu efni; en þar er
heimbúðarland eigi orðið að fá nema í vestrhlutanum. Atvinna virðist þar
éigi eins torfengin og í Wisconsin; en in síðustu ár hefir ríki þetta verið
plágað af engisprettum, er öllum gróðri hafa eytt; sá ég ófögr merki þess í
haust, er leið (1874), og er eigi ólíklegt, að þó sé verra eftir enn.
Bœndr, er nýlega höfðu reist þar bú, hafa flúið ríkið ekki hundruðum, heldr
þúsundum saman.
4. Um atvinnu er það að segja, að hennar er oftast skortr þar, sem mest er
gnœgð óbygðs lands. Atvinna var góð og gnœg fram að síðustu árum í
vestrríkjunum; en er nú alstaðar í Ameríku (nema, ef til vill, í
California) rýrari miklu en áðr var. Sama er að mestu um Canada að segja. Á
sumrin má viðast eitthvað fá að gjöra fyrir einhverja borgun, og sumstaðar
góða atvinnu; en á vetrna eru þúsundir manna útlendra og innlendra
verklausir og sumpart brauðlausir. Þó þetta sé nú mest að kenna verka-mönum
sjálfum, þá er það nú svona samt; og vér skulum eigi í þessu efni ætla
Íslendingum meira en öðrum. Þeir hafa eigi sýnt sig sumir svo ófúsa að
halla sér upp á hreppinn hér og leggjast á sveit; þó býðr sannleikrinn að
segja, að þessir eru fáir. Í Nebraska er góð sumar-atvinna, en tregt verðr
þar líklega um vetrar-atvinnu nema maðr ráði sig til árs, og verðr þá lítið
úr fyrir nýbýlingnum að vinna á sjálfs síns landi. En sá, er heimbúðarland
("homestead") tekr, verðr að búa á jörð sinni minst 6 mánuði á ári; ella
missir hann rétt sinn til landsins.
5. Skóg skortir eigi í Canada; en þar er heldr mikið af honum, svo landið
verðr þungt að yrkja; svo er og í Michigan, enda er land þar ófrjótt. Aftr
er skógarhögg og viðarsala þar atvinna. Í Nebraska er víða meinlegr skortr
skógar, og verðr allan við að kaupa. Nýbyggjendr grœða þar skóg, og verðr
það bót með tímanum.
6. Loftslagið er fjarskalega áríðandi atriði. Íslendingar eru eigi
afarhitum vanir og verðr því illa vært við stritvinnu í afarhitum; enda er
lífi og heilsu af slíku hœtta búin; en í öllum þeim ríkjum, er nefnd hafa
verið (nema Alaska), eru sumarhitar fjarskalegir. Sólstunga ("sun-stroke")
er eigi neitt óvenjuleg enda í Wisconsin. Það eru langt frá ekki sælustu
löndin þar sem alt "brennr og frýs" eins og í helvíti. Í Wisconsin (og
Canada) og vestrríkjunum öllum vestr að Steinafjöllum eru vetr grimmari og
harðari miklu, en þá er verst er á Íslandi. Í Illinois, sem þó liggr suðr
af Wisconsin, hefir komið -58° á Fahrenheit (þ.e. -40° á Réaumur) og er það
meiri grimd, en Íslendingar hafi hugmynd um. Mér virðist auðsætt, að oss
verði affara-bezt sumur, er eigi sé miklum mun heitari, en heima, en
töluvert lengri, og þetta er einmitt það, sem á sér stað í Alaska; en
vetrar eru þar styttri, staðviðrasamari og mildari, en á Íslandi.--Umskifti
hita og kulda eru mjög snögg í Wisconsin og þeim ríkjum; á eftir afarheita
daga koma frostkaldar nætur; því er þar kölduhætt, ef eigi er því varlegar
farið. Á Nova Scotia koma vetrar verri miklu, en á Íslandi tíðkast.--
Loftslagið er svo þýðingarmikið, að það er ekki ástœðulaust að efa, að
nokkur talsverðr fjöldi Íslendinga geti lifað til lengdar í þessum
landsplássum.
7. Þá er þess er gætt, að ekkert land, er liggr langt frá sjó, hefir eins
temprað loftslag og hin, er við sjó liggja, og þess er enn framar gætt, að
vestrstrendr allra meginlanda eru tiltölulega miklu heitari, en
austrstrendr, þá liggr í augum uppi, eigi að eins, að œskilegt væri að hafa
nýlenduna við sjávarsíðu, heldr og að Alaska er eina land í álfu þessari,
sem um er að gjöra til þessa. Nova Scotia er verra land og harðara, en
Alaska; en í Banda-ríkjunum er eigi um neitt land að gjöra við austrsíðu
sjávar, nema Maine; og satt að segja væri Maine ugglaust langbezt fyrir
Íslendinga næst eftir Alaska. En í Maine er engi von að vér höldum þjóðerni
voru.--Íslendingar margir eru líka aldir upp við sjó og fiskiveiðar, svo að
það má kalla að sjórinn sé önnur náttúra sumra þeirra.--Maine er ið eina af
þeim ríkjum Banda-ríkjanna, er við sjó liggja, sem enn er eigi fullbygt.
Svíar margir flytja þangað árlega.--Vetrarríki er þar mikíð, en þó eigi svo
sem í Canada.
8. Öll þau landspláss í Banda-ríkjunum eða Canada, sem enn hafa til mála
komið (að Alaska undan skildu), eru svo löguð, að akryrkja er aðal-
atvinnuvegrinn, og verða því fullorðnir menn að heiman að læra hér alt af
nýju sem börn, er til verka heyrir. Alaska eitt veitir fœri á að stunda
sömu atvinnu sem heima. Í engu þessara landsplássa, nema Alaska, er
veiðiskapr svo mikill, að nýkomandi geti við það lifað í fyrstu. Í Alaska
er hverjum auðgefið að lifa, þó hann stígi fœti á land þar alslaus að öðru
öllu, ef hann hefir skotfœri og fœri og öngul, öxi og tálguhníf með sér.
Það segir sig sjálft að það sé betra, að hafa meiri útbúnað. En sá, sem
þetta hefir, ÞARF ekki að deyja úr harðrétti og hefir vísinn til komandi
velmegunar í hendi sér.
9. Nálega allar, eða enda allar þær þjóðir, er til Ameríku flytja aðrar, en
Íslendingar, eru að meiru eða minnu leyti akryrkju-þjóðir. Þannig enda
Norðmenn og Svíar; þeir hafa nokkra akryrkju heima, og gefa sig alla við
henni, er þeir koma hingað. Í Noregi og Svíþjóð eru og sumur heitari og
vetrar kaldari, en á Íslandi, og það að miklum mun. Allar þessar aðrar
þjóðir leita því akryrkju-landa hér, og þau finna þær miklu austar og munu
enn finna um langan aldr; þær hafa enga ástœðu til, að leita svo langt
vestr, sem til Alaska. Íslendingum er því anðgefið, að byggja einir landið
nú um sinn. En nái þeir þar fótfestu, þá eru þeir sjálfráðir, hvort þeir
vilja halda því einir eða ekki; þeim eru nefnilega ótal löglegir vegir
opnir til að halda öðrum þjóðum frá sér; ef þeir byggja þar nú í fyrstu, þá
fá þeir alt löggjafarvald landsins í hendr sér, því engir aðrir menn byggja
þar nú, nema ómentaðir skrælingjar, er eigi hafa borgaraleg réttindi. Þá er
þeir hafa löggjafarvaldið (og það fá þeir þegar), þá gjöra þeir íslenzku að
þjóðtungu þess ríkis, og þeir hafa rétt til að gjöra þau lög, að enginn
hafi atkvæðisrétt sem borgari í landinu, nema hann kunni íslenzku; þetta
neyddi þá hvern útlending, sem inn kœmi, til að taka upp tungu og þarmeð
þjóðerni þeirra, og verða Íslendingr. Þeir mundu líkt og önnur ríki gefa
land af eign ríkisins til eflingar skólum og mentun; þeir geta gjört alla
þessa skóla íslenzka. Þeir mundu styrkja til innflutnings fólks í landið;
en þeir gætu á kveðið að styrkja að eins íslenzka menn til innflutnings,
o.s.frv. Þeir hefðu alveg í höndum sínum að búa um sig eins og þeir vildu
eins og frjálst ríki. EKKERT ANNAÐ LAND VEITTI ÞEIM FŒRI Á ÞESSU! Og þetta
er stórmikið atriði--já, í mínum augum verðr það eigi vegið upp með neinu!
* * * * *
IV.
NIÐRLAG.
Það liggr í augum uppi, að það er nauðsynlegt, að finna einn nýlendu-stað
fyrir íslenzka vestrfara. Það þykist ég hafa sýnt að framan. Það vaknaði
fyrir mér þegar, er ég hafði skamma stund hér í landi verið. Það var
auðséð, að Wisconsin var í engan máta til þess hœft; og Ólafr Ólafsson, inn
gáfaði og mentaði landi vor, frá Espihóli, hafði ferðazt um Canada vítt og
breitt, til að leita að hentum stað. Við séra Jón Bjarnason og ég
skrifuðumst mikið á um þetta í fyrra vetr, og ráðfœrðum okkr við ýmsa
You have read 1 text from Icelandic literature.
Next - Alaska - 7
  • Parts
  • Alaska - 1
    Total number of words is 4345
    Total number of unique words is 1629
    29.0 of words are in the 2000 most common words
    38.0 of words are in the 5000 most common words
    38.0 of words are in the 8000 most common words
    Each bar represents the percentage of words per 1000 most common words.
  • Alaska - 2
    Total number of words is 4450
    Total number of unique words is 1704
    29.6 of words are in the 2000 most common words
    36.4 of words are in the 5000 most common words
    36.4 of words are in the 8000 most common words
    Each bar represents the percentage of words per 1000 most common words.
  • Alaska - 3
    Total number of words is 3239
    Total number of unique words is 1265
    32.6 of words are in the 2000 most common words
    41.1 of words are in the 5000 most common words
    41.1 of words are in the 8000 most common words
    Each bar represents the percentage of words per 1000 most common words.
  • Alaska - 4
    Total number of words is 4397
    Total number of unique words is 1649
    31.0 of words are in the 2000 most common words
    39.7 of words are in the 5000 most common words
    39.7 of words are in the 8000 most common words
    Each bar represents the percentage of words per 1000 most common words.
  • Alaska - 5
    Total number of words is 4944
    Total number of unique words is 1798
    29.1 of words are in the 2000 most common words
    37.9 of words are in the 5000 most common words
    37.9 of words are in the 8000 most common words
    Each bar represents the percentage of words per 1000 most common words.
  • Alaska - 6
    Total number of words is 4867
    Total number of unique words is 1673
    27.1 of words are in the 2000 most common words
    35.4 of words are in the 5000 most common words
    35.4 of words are in the 8000 most common words
    Each bar represents the percentage of words per 1000 most common words.
  • Alaska - 7
    Total number of words is 1987
    Total number of unique words is 929
    32.6 of words are in the 2000 most common words
    40.6 of words are in the 5000 most common words
    40.6 of words are in the 8000 most common words
    Each bar represents the percentage of words per 1000 most common words.