Alaska - 2

Total number of words is 4450
Total number of unique words is 1704
29.6 of words are in the 2000 most common words
36.4 of words are in the 5000 most common words
36.4 of words are in the 8000 most common words
Each bar represents the percentage of words per 1000 most common words.
Plavējno heitir. Þaðan er vegr eigi langr til Kopar-fljóts. Tvær ár stórar
falla að austanverðu í Cooks-flóa. Í annari þeirra er gull, og mun þess
getið síðar í skýrslu vorri. Margar eru minni ár og lœkir með Cooks-flóa;
og er alt bókstaflega spriklandi og á iði af laxi og silungi.
Alíaska-skagí er fjöllótr, einkum nyrzt; þau fjöll eru þó eigi samföst og
lækka eftir því sem suðr eftir dregr; þau eru framhald af Alaska-fjöllum.
Frá norðvestr-hlut skagans renna nokkrar ár út í Bristol-flóa. Milli inna
háu fjalla, er mynda framhald af Alaska-fjöllum, og eins þar sem þeim
sleppir, er landið lágt og votlent. Víða eru þar stöðuvötn og mörg allstór.
Liggja sum svo lágt yfir sjávarflöt, að vatn þeirra er salt. Úr þeim renna
ár og lœkir til beggja hliða í haf út. Aleutar ferðast svo á lœkjum og ám,
að þeir róa léttum skinnbát, það sem áin endist, taka svo bátinn, er vatn
þrýtr, og bera hann með sér þar til, er önnur á tekr við; því bátarnir eru
fisléttir. Þannig getr maðr róið sumstaðar yfir þveran Alíaska-skaga, frá
Kyrra Hafi yfir í Bærings-haf, nálega án þess að stíga fœti á land.--Eitt
af inum stœrstu stöðuvötnum er Iliāmna. Það er enn ókannað að mestu; ætla
menn það muni fremr grunt eftir stœrð; en það vita menn, að það er yfir 80
mílur á lengd og um 24 mílur á breidd, og er það meira en hálft Ontario-
vatn.
Ár þær, er falla í Bærings-haf, eru bæði meiri og fleiri, en þær, sem falla
í Alaska-flóa. En sakir þess, að mér þykir hér mest undir komið, að lýsa
þeim hlut landsins, er liggr að Alaska-flóa, en rúmið hinsvegar lítið, þá
verðr hér að sinni að eins drepið á tvö in helztu af þessum vatnsföllum.
Fyrir norðan Bristol-flóa fellr í sjó fljótið Kuskoquim; það er annað mest
fljót í Alaska, næst Yukon-fljóti, og stœrst allra þeirra vatnsfalla, er
upp spretta í Alaska; er það kallað að vera frá 500 til 600 mílur á lengd;
það er straumhart. Uppi í landi langt, fyrir sunnan Kuskoquim, kvað geta
Zeolít, brennistein og blátt kopar-_carbonate_;[4] hefir það verið keypt að
þarlendum mönnum. Þar kvað og vera ofrgnœgð af gáshauk (_gosehawk_--fálka-
tegund, er svo nefnist). Indíánar eru um þetta svæði, en aldrei hefir neinn
hvítr maðr þangað fœti stigið enn. Þar kváðu vera eldfjöll og náttúra in
hrikalegasta.
Yukon-fljótið fellr í tveim aðal-kvíslum í sjó, og verðr stór eyri í milli;
tekr sú eyri frá 62° 21' til 62° 50' n. br. og er 60 mílna á lengd að ensku
máli. Aðal-áin fellr út í kvísl þeirri, er Kúsilvak heitir; sú er kvísl in
dýpri; en Kwikhpak heitir nyrðri kvíslin, og er breiðari. Lengd als
Yukon-fljóts, frá Kennicott-vatni (57° 45' n. br. og l30° 45' v. l.) og til
þess er Kúsilvak-kvíslin fellr í sjó, er 1800 mílur; þó er þetta líkl. of
lítið í lagt, og sé bugður fljótsins teknar með í reikninginn, sem eigi var
hér gjört, þá er ekki ýkt að kalla það 2000 mílna langt, og er það
skipgengt frá sjó þrjá fjórðunga af lengd þess upp eftir.--Sakir stœrðar
sinnar og þýðingar á Yukon-fljót skilið að nefnast eitt af inum stœrstu og
merkustu vatnsföllum í heiminum. Það er stœrra en Ganges og Orinoco, og
áþekt að stœrð sem Danube eðr La Plata-fljótið. Það heyrir til innar sömu
ættkvíslar af norðrheims-fljótum, sem in nafnkunnu fljót Obi, Lena,
Saskatchewan og Mackenzie.
7. _Hafstraumar._
Eigi hlýðir annað en að minnast stuttlega á ina miklu strauma í Kyrra
Hafinu og Bærings-hafi; því að þeim er það að þakka, hve milt og blítt
loftslagið er í suðrhlut Alaska og yfir höfuð á öllum norðvestr-ströndum
Ameríku, í samanburði við norð-austr-strendrnar.
Inn mikla hita-straum í Kyrra Hafinu, þennan annan Gulf-straum, kalla
Japans-menn Kuro Siwo þ.e. dökkva straum; því í honum er vatn dekkra, en
ella er í Kyrra Hafi. Nýrri landa-frœðingar og allir lagar-frœðingar nú á
tímum nefna hann Japans-straum. Straumr þessi klofnar á vestrhorni
Aleuta-eybeltisins; gengr þá annar straumrinn austr fyrir sunnan Aleuta-
eyjar og beygist alt af með ströndinni unz er kemr austr fyrir Alíaska-
skaga; þar klofnar straumrinn aftr; gengr þá aðalstraumrinn norðr og austr
með ströndinni og fylgir henni, beygir suðr með henni austan við Alaska-
flóa og gengr suðr með Alexanders-eyjum og svo suðr með ströndum Bretlands-
eigna, Washington-fylkis, Oregon-ríkis og Kaliforníu-ríkis; hin kvíslin, er
klofnar úr strauminum fyrir austan Alíaska-skaga, slær sér beint austr, og
kemr saman við nyrðra strauminn við Alexanders-eyjar og sameinast honum þar
aftr. Með þessum straumum streymir heitt og blítt loft frá suðri; dregst
það saman og þykknar á fjallatindunum fyrir ofan strendrnar og veldr inu
mikla regnfalli, sem einkennir alla ströndina suðr fyrir Oregon.--Inn
nyrðri og minni aðal-armr straumsins, eftir að hann klofnar fyrst, streymir
norðr sundið milli Formanns-eyja og Aleuta-eyja og norðr alt Bærings-haf,
norðr um Bærings-sund og út í Íshaf. Fyrir því kemst eigi hafís suðr um
sundið. Aftr á móti segja hvalarar að oft sjáist stórir ísjakar hrönnum
saman sigla norðr um sundið, geta þeir farið alt að hálfum öðrum knút á
klukkustund móti allströngu norðanveðri. Það er ís, er leysir frá
ströndunum við Bærings-haf. Á sumrin kemr lítill kaldr straumr að norðan og
gengr suðr að austan fram með Kamchatka-ströndum í Asíu. Fyrir því er
kaldara miklu að tiltölu á Asíu-ströndum, en jafn-norðarlega á Alaska- eðr
Ameríku-ströndum.--Nálægt Shumagin-eyjum var í ágúst 1865 stríðr straumr
til norðrs og austrs, og var hitinn í sjónum þar +56° Fahrenheit (þ.e.
10.7° Réaumur).--Í sundunum í Aleuta-eybeltinu eru ýmislegir straumar, og
breytast með sjávar-föllum; þó eru ríkari straumar til norðrs en suðrs.
Sakir breytileika straumanna er varasamt fyrir ókunnug skip að leggja í
sund þessi nema með varúð.
8. _Fjallgarðar._
Öll in hæstu fjöll í Alaska liggja fyrir sunnan 65° n. br.--Stranda-fjöll
(Coast Range) eðr Elíasar-fjallgarðr (St. Elias Range) ganga með ströndinni
fram; í þeim fjallgarði eru hæst fjöll og hnjúkar, og spúa sum eldi. Stefna
þessa fjallgarðs er norð-vestr. Þá er kemr vestr fyrir 142° (v.-l. fr. Gr.)
er það eigi lengr samanhangandi fjallgarðr; klofnar þá á ýmsa vega eftir
það, og ná sumar álmurnar saman við Alaska-fjöll; en Alaska-fjöll eru
framhald af Steina-fjöllum (Rocky Mountains). Annars er lítt kunnugt um
fjöllin uppi í meginlandi, og eru þau sett vitlaust út í bláinn á öllum
kortum Evrópu-manna, nema inum síðustu þýzku kortum frá Gotha; þar eru þau
löguð eftir kortum Dalls; en hans kort eru in fyrstu áreiðanlegu kort yfir
Alaska.
Fjallgarðarnir hlífa við öllum norðanveðrum, og er það munr eða í
Mississippí-dalnum, er blasir opinn við öllum norðanveðrum og kulda úr
þeirri átt. Eiga fjöllin í Alaska vafalaust næst eftir straumunum mestan
þátt í því að gjöra vetrinn svo mildan og blíðan á suðrströndinni og
eyjunum í Alaska-flóa.
Hæstu fjöll, er mæld hafa verið, eru 14000 feta há (Mount Fairweather--
Góðviðris-fjall); en gizkað er á, að Elías-tindr muni vera 16000 feta.
Iliāmna, eldfjall á Alíaska-skaga, er 12066 feta, en Redoubt 11270 feta. Á
Valaprinz-ey er Mount Calder 9000 feta hátt.
9. _Stœrð Alaska._
Eftir því, sem Fr. Hahnemann í Gotha hefir reiknað, skal hér skýrt frá
stœrð Alaska. Þess ber að gæta að inu þýzka ferhyrnings-mílna-tali er
breytt í enskar ferhyrnings-jarðmílur eftir hlutfallinu 1 á móti 21.16.
Stœrðin verðr þá þannig:
Eyjar í Bærings-hafi 3 963.0584
Aleuta-eyjar 6 391.5896
Kadíak-eyjar og Shumagin-eyjar 5 676.3816
Chúgach- og aðrar eyjar 1 031.7616
Alexanders-eyjar 14 142.9208
----------------
Flatarmál eyjanna samtals 31 205.7100
Meginlandið 548 901.6148
--------------------
Als 580 107.3248
enskar □ jarðmílur.
* * * * *
II. KAFLI.
UM SÖGU LANDSINS.
Saga norðvestr-hluta Ameríku er því nær undantekningarlaust saga um verzlun
og landa-könnun. Þrældómrinn af verzlunar-ánauð þeirri, er eitt eínokunar-
félag lagði á landið, stóð svo lengi yfir, að það er fyrst á síðustu árum,
síðan frelsið létti okinu af, að pólitík á nokkurn þátt í sögu landsins.
Jafnvel þótt sagan um slíkt sé að vísu eigi uppbyggileg að sumu leyti, tel
ég þó mein, að rúmið leyfir eigi að skýra neitt frá sögu landsins að sinni,
því hún er þó ekki að öllu ómerkileg í sjálfri sér.
Eignarréttr Rússa til Alaska var bygðr á því, að þeir höfðu fyrstir fundið
landið. Pétr mikli Rússa-czar var sjálfr skipasmiðr og kunni til sjómensku;
honum var forvitni á að vita, hvort Asía og Ameríka væri áfastar að norðan;
því þá var ekki um það kunnugt, hvort svo væri eðr eigi. Einhvern dag
ritaði karlinn með eigin hendi á blað þessi fyrirmæli:
"Að byggja einn eða tvo báta, með þiljum, á Kamchatka eðr öðrum hentugum
stað; á þeim ætti að gjöra eftirleit um norðrstrendrnar, til að sjá, hvort
þær ná eigi saman við Ameríku, þar sem endimörk þeirra eru ókunn; því næst
skyldu þeir að því huga, hvort þeir gætu ekki einhvers staðar fundið höfn,
sem heyrði til Evrópu-mönnum eðr Evrópu-skip. Einnig ættu þeir að dreifa
nokkrum mönnum um, sem skyldu spyrjast fyrir um nafn og legu þeirrar
strandar, er þeir finna; halda skyldi nákvæma dagbók yfir alt þetta, og
skyldu þeir koma með hana til Pétrsborgar." Þetta blað fékk Pétr í hendr
œzta aðmírál sínum, og bauð honum að sjá svo um, að þessu yrði
framgengt.[5] En Pétr czar inn mikli dó vetrinn 1725; en Katrín drotning
lagði ástundun á, að framkvæma vilja haus. Maðr er nefndr Bæringr (Veit eðr
Vitus Bering) og var danskr, fœddr á Hrossanesi í Jótlandi, enda virðist
hafa verið í honum hvorki dáð né dugr. Hann var gjör formaðr (_Commander_)
fararinnar og lagði upp frá Pétrsborg 5. febr. 1725 yfir Síberíu og
Norðr-Asíu til Kamchatka; var hann yfir 3 ár á leiðinni. 20. júlí 1728
lagði hann í haf og sigldi norðr og austr; hann sigldi all-raglega og hélt
sér undir ströndum Asíu; fann hann ey þá, er hann nefndi Lafranz-ey eftir
heilögum Lafranzi; það var á Lafranz-messu. Eigi sá hann neitt af Ameríku,
og eigi hætti hann sér lengra norðr en á 67° 30' n. br.--Þóttist hann þess
nú fullvís orðinn, að Asía væri eigi áföst Ameríku; snéri síðan heim aftr.
Minnir þetta ferðalag á það, er Sigurðr Pétrsson kvað um inar dönsku
hetjur, er fóru að leita Grœnlands:
"Þeirra' af ferðum rómur rís
fyrir rausnar-verkin stóru;
þeir sigldu burt og sáu ís,
og svo til baka fóru."
Bæringr kom til Pétrsborgar aftr í marz 1730 eftir 5 ára útivist, og þótti
garpr mikill orðinn af ferðinni. Eftir Bæringi danska er nefnt Bærings-haf
og Bærings-sund.[6] Gwosdew, rússneskr maðr, fann vestr-strönd Alaska
1730.--1741 fór Bæringr enn að leita Ameríku, og komst hann nú í Alaska-
flóa og sá Elías-tind. En hann dó úr vesöld á einni eyjunni í flóanum og
hvíla þar bein hans. Eyja sú heitir Bærings-ey. Rússar eignuðu sér landið;
en eigi var það mikið, er fyrst fanst. En smátt og smátt fanst meira og
meira og jukust farir til Alaska til verzlunar. Þó var lítið um að Rússar
hefði neina stjórn á verzluninni fyrri, en 1799. Var verzlunin alla tíð
síðan seld í hendr einokunar-félagi með einka-leyfi, unz Rússar létu landið
af hendi.
Árið 1867 seldu Rússar landið Banda-ríkjunum, en þau gáfu fyrir sjö
miljónir og tvö hundruð þúsundir gullpenninga ($7 200 000 í gulli), en það
lætr nærri 28 miljónum danskra króna. Kaupsamningrinn er gjör í Washington,
D.C., höfuðborg Bandaríkjanna, 30. dag marz-mánaðar 1867, en síðan
staðfestr af Rússa-czar.
* * * * *
III. KAFLI.
INNLENDAR ÞJÓÐIR.
Innlendum þjóðum í Norðr-Ameríka eðr frumbyggjum landsins (ef svo má kalla)
er eðlilegast að skipta í tvær meginþjóðir. Önnur er sú þjóð, er kallast
Indíánar eðr rauðir menn. Á hina hefir lengi vantað hœfilegt eitt nafn. Á
fundi í inu ameríska vísinda-félagi (_American Association for Advancement
of Science_) stakk Dall Alaska-fari upp á nafni, er félagið félst á, en það
er, að kalla þá Órāríána (þ.e.: Stranda-menn), fyrir því að þeir búa
hvervetna með sjó fram, en hvergi langt uppi í landi (að því frá skildu, að
þeir byggja œði-langt upp með Yukon-fljóti, en þó að eins með bökkunum
fram). Verðr það ljósast, hve vel heiti þetta er valið, ef lesarim vill
líta á landkortið, og mun hann þá skjótt gæta þess, að flokkar af þessari
þjóð hafa svo bygð sína, að hún er sem belti umhverfis allar strendr
Ameríku að norðan og vestan, og aðeins örsjaldan lítið eitt upp í land fram
með stórfljótum, t.d. Yukon, en slitnar að eins á sárfáum stöðum, svo sem
t.a.m. á norðrströnd Kenai-höfða, þar sem Indíánar hafa bygð á ströndinni;
annars byggja Indíánar upplandið, en Órāríánar strendrnar milli Indíána og
sjóarins.
Órāríánar deilast í þrjá kynflokka, sem allir eru nokkuð mismunandi.
Fyrst er flokkr sá er nefnist Innuit; af þeim flokki eru Grœnlendingar og
Eskimóar þeir, er byggja norðrströnd Ameríku og eyjarnar þar í kring, og
sömuleiðis eyjarnar í Bærings-hafi og strendrnar á Alaska að vestan, alt
suðr að Elías-fjalli.
Annar flokkrinn er Aleutar; þeir byggja Aleuta-eyjar og Alíaska-skaga austr
að 160° v.-l. (fr. Gr.).
Þriðji flokkrinn eru þeir menn, er Túski eru kallaðir. Þeir byggja
norðaustr-skagann á Síberíu og eyjar í Bærings-sundi; en annars koma þeir
eigi við þetta mál.
Aleutar eru menn friðsamir, svo að undrum má sæta þykja, greindir og fremr
námfúsir en latari eru þeir en frá megi segja. Þó mun mest á því bera, þar
sem in svo kallaða menning (_civilization_) hefir spilt þeim. Góðmenni eru
þeir in mestu, fámálugir og orðheldnir að náttúrufari, þar sem uppeldi
hvítra manna á þeim er eigi orðið náttúrunni yfirsterkara. Flestir eru þeir
kristnir að nafni (grísk-kaþólskir). Þeim er flest vel gefið af náttúrunnar
hendi. Þeir eru veiðimen góðir og fiskimenn, en forsjálausir, lifa í sukki
og als gnœgtum meðan nokkuð er til, en svelta svo þolinmóðir heilu hungrinu
þegar harðnar í búi. Útlendir verzlunarmenn hafa náttúrlega spilt siðum
þeirra sumra, og drykkjumenn eru þeir nálega allir, er þeir fá nokkurn
dropa. Tóbak þykir þeim og sælgæti mikið og borga það dýrum dómum. Það er
jafnan svo í heiminum, að spillingin verðr menningunni samfara; syndin grœr
á skilnings-trénu.--Aleutar eru hvergi nærri ment þjóð, en þó geta þeir enn
síðr heitið vilt þjóð; þeir hafa fasta bústaði og öll þeirra háttsemi er
svo, að þeir mega vel kallast að hafa hálf-menningu eðr meira.
Innuit eru sams konar menn sem Grœnlendingar. Standa þeir Aleutum nokkuð á
baki bæði að líkamans og sálarinnar atgjörfi. En af því lesendr munn
flestir hafa einhverja hugmynd um Grœnlendinga, þá þykir minni þörf á að
lýsa þessum kynflokki hér, þó þeir byggi mest það pláss, er ég helzt vil
lýsa hér.
Indíánar eru hér líkir því, sem þeir víðast eru; en þeir koma eigi mjög til
máls hér, með því þeir byggja lítið sem ekki strendrnar, og byggja als eigi
það svæði, er ég einkum vil hér lýsa, en það eru Kadíak-eyjar. Indíánar
þeir, sem eru á litlu svæði við Cooks-flóa, eru friðsamir, meinlausir og
eigi ógreindir, sumir dáfríðir í sjón.
Aleutar eru ljósir á hörund og sumir dáfríðir menn. Eigi eru þeir skírlífir
svo orð verði á gjört. Margir eru því kynblendingar komnir af Rússum í
föðurætt; eru sumir kynblendingar fríðir sýnum, og margir þeirra hafa aftr
gengið að eiga rússneskar persónur. Margir þeirra eru hagir menn til smíða.
* * * * *
IV. KAFLI.
LOFTSLAG OG GRÓÐR.
Alaska er feyki-stórt land svo sem þegar hefir sýnt verið. Það er því
háskalegr, en, því miðr, almennr misskilningr að gjöra sér eina og sömn
hugmynd um alt Alaska, gætandi eigi þess, að Alaska er eins stórt og hálf
Norðrálfan. Menn verða að minnast þess, að nyrzti höfði í Alaska (Point
Barrow) liggr á 71° 27' 0" n. br. og að syðsta eyjan í Alaska liggr á 51°
10' 0" (að því er Gibson segir; Salāmatoff segir 51° 12' 0"). Frá nyrzta
höfða í Alaska til ins syðsta er því eins langr vegr og frá Reykjavík á
Íslandi til Florenz á Italíu. Nyrzti tangi í Alaska liggr álíka norðarlega
og Norðr-höfði (Nord Cap) í Noregi; en syðsti tanginn á Aleuta-eyjum liggr
sunnar en Leipzig á Þýzkalandi. Má vera þetta hjálpi upp á skilninginn hjá
þeim, er ætla að Alaska sé öll einn sífrosinn Niflheimr eða jökulkaldir
tröllheimar. Ég ætla að lesaranum mundi þykja það eigi all-vitrlega mælt,
ef einhver fœri að lýsa Evrópu, og lýsti henni svo, að þar væri ólifandi
nokkurri mentaðri þjóð; hafnir allar væru þar íslagðar mikinn hlut árs,
dögum saman á vetrum sæi enga sól, o.s.frv., o.s.frv.--og þó á þessi lýsing
jafn-vel eða jafn-illa við Evrópu einsog við Alaska. Það á jafn-vel við
norðrstrendr Noregs, Finnlands og Rússlands eins og það á við norðrstrendr
Alaska. Það á jafnilla við suðrstrendr Alaska eins og við Holland, Belgíu,
England og Þýzkaland o.s. frv. Og þó hefi ég orðið að heyra, að Alaska væri
"verra en Ísland," "skrælingja-land," o.s.fr. Já, "Alaska" og "Alaska" er
ekki það sama! Alaska er verra en Ísland, en Alaska er líka betra en
Skotland--alt kemr undir, hvaða héröð af Alaska um er talað. Já, Alaska er
"skrælingja-land"--en öll Ameríka, þetta dýrðlega land, er líka skrælingja-
land; það var alt bygt skrælingjum, og það verri skrælingjum, en nú eru í
Alaska, áðr hvítir menn námu þar bólfestu; en nú er víst skrælingjaskaprinn
meiri orðinn á inu mentaða Íslandi, en í skrælingja-landinu Ameríku. Ég
skal svo ekki eyða fleirum orðum að þessu, en að eins láta í ljósi þá von,
að skynsamr lesandi láti eigi blekkjast af því hrekkvíslegu orða-gjálfri,
sem ætlar að slá sandi í augu manna með því að fela stórmikið höfuðland
undir einu nafni, og lýsa því svo öllu með þeim eiginleikum, sem að eins
eiga við lítinn hluta þess. Sé nokkur svo andlega starblindr að láta
blekkjast af slíku, þá liggr mér við að segja sá inn sami sé eigi þess
verðr að leggja hann á hné sér til að sýna honum sannleikann.
Alaska er svo stórt land, að eigi er unt að lysa loftslagi og gróðri
landsins als í einu; svo ólíkt er loftslagið og gróðrinn á ýmsum stöðum.
Náttúran sjálf bendir til að deila Alaska í þrjú aðalfylki eðr héröð, hvað
maðr vill kalla það; hvert fyrir sig af fylkjum þessum er ólíkt hinum að
loftslagi, gróðri og landsháttum.
Hér skal haldið þeim nöfnum á fylkjum Alaska-lands, er Dall Alaska-fari
hefir gefið þeim í sinni bók.
Þessi fylki Alaska-lands eru:
1. _Yukon-fylki_,
2. _Aleuta-fylki_, og
3. _Sitka-fylki_.
_Yukon-fylki_ er nyrzt; að austan nær það að takmarka-línu Bretlands-eigna,
og að sunnan að Alaska-fjöllum, að vestan að Bærings-hafi og að norðan að
Íshafinu.
_Aleuta-fylki_ tekr yfir þann hlut Alíaska-skaga, er liggr fyrir vestan
155° vestrlengdar og eyjar þær, sem eru vestr af þeirri línu.
_Sitka-fylki_ tekr yfir meginlandið og eyjarnar fyrir sunnan Yukon-fylki og
austan Aleuta-fylki.
Nú skal lýst stuttlega hverju þessu fylki fyrir sig, en lesarinn verðr að
gæta þess, að Yukon-fylki varðar minstu fyrir tilgang þessa ritlings, og
verðr það að vera afsökun þess, að því er stuttlegar lýst, en hinn, er
meira varðar.
1. _Yukon-fylki._
Landslagið fram með Yukon-fljóti er svo lagað, að fyrst er landið lágt,
öldumyndað og hólótt, sumstaðar grýtt, en víðast hvar greitt yfirferðar; þá
er fjær dregr fljótinu, koma breiðar sléttur oftast meira eða minna
mýrlendar, og taka yfir margar mílur á breidd, beggja vegna fljótsins;
breiðastar eru þessar sléttur þó næst mynninu. Engir eru samgöngu-vegir í
fylki þessu, nema gangstigir á stöku stað, óglöggvir sem fjárgötur á
Íslandi, og verða varla aðrir þeirra varir, en Indíánar og þeir, sem vanir
eru að lesa sig fram eftir Indíána-stigum í óbygðum. Yukon-fljótið og ár
þær inar minni, er í það renna, eru þjóðvegir fylkisins.
Steinategundirnar eru ýmislegar; mestr partr er þó _conglomerate_
(ávala-grjót) _syenite_ (samsetningr af brunagrjóti og kvarz), _quartzite_
(kvarz eðr steypu-grjót) og _sandstone_ (móberg?). Vikrkol, skúrsteinn og
bruna-grjót ("lava," hraun) er gnœgt á sumum stöðum. Yfirborðs-jarðvegrinn
er og ýmislegr, sumstaðar sand-kendr, á öðrum stöðum aftr meir leir-kendr
og mó-kendr. Þar sem jarðvegr er leir-kendr, er oft vætu-mosi vaxinn yfir
yfirborðið og þekr það; spillir það mjög jarðveginum undir; kemr þetta af
skurða-leysi, af því vatninu er eigi framrás veitt. Á mjög miklu svæði er
jarðvegrinn frjósamr og _alluvial_ (myndaðr við vatna-gang), er það sandr
ofr-smágjör, mold og fúið jurta-efni (_vegetable matter_); hefir fljótið
borið þetta með sér og hefir það safnast í lög svo djúp, að eigi hefir mæld
orðið dýpt þeirra. Nývetnis-frjóleir (_fresh-water marl_) er ofr-gnógr á
slíkum stöðum víða hvar.
Víða helzt ís í jörð árið um í kring, þrem fetum undir yfirborði; er þetta
einkum þar, sem yfirborðið er mosa þakið. Þar sem skurðir eru og vatninu er
vel veitt afrás, liggr ísinn dýpra eðr hverfr með öllu; er enginn efi á, að
ísinn hverfr með tímanum þar sem jörðin er vel plœgð og vatn-ræst.--Það er
fróðlegt að bera hér saman við það, sem Aiton segir í sinni "Treatise on
Peat moss," &c., í Edinb. Encyclop., Vol. XVI, p. 738, þar sem hann eignar
að talsverðu leyti mosa-vextinum ið kalda og vætusama loftslag Skotlands.
Segir hann: "32½ únsa af þurrum mosa heldr í sér 18 únsum af vatni, án þess
að láta það drjúpa; þar sem 39 únsur af inni frjóustu garðmold halda að
eins 18½ únsu. Mosi heldr og meiri kulda í sér, en nokkur önnur
jarðvegstegund. Þar sem mosi er þykkr (í Skotlandi) helzt oft frost í jörð
fram yfir miðsumar. Af þessu verðr ljóst hver áhrif mosinn hefir á
loftslagið til að kœla það." [1 únsa er nærfelt 2 lóð.]
Það er svo í Yukon-fylki sem hvervetna í Alaska, að loftslagið uppi í
landinu er mjög frábrugðíð því, sem það er á ströndunum, og það á stöðum,
setti eigi eru fjarlægir hvor frá öðrum. Ið mikla megin af nálega volgu
vatni, sem er í Bærings-hafi, og inir mörgu hita-straumar frá Kyrra Hafinu,
gjöra loftslagið á ströndinni miklu mildara heldr en uppi í landinu; svo að
munrinn er fjarska-mikill þegar 30 mílur (liðl. sex danskar mílur) frá
ströndinni; því þó eigi að há fjöll á ströndinni, þá er þó hálendi nœgt til
þess að bœgja heitum vindum frá að blása inn yfir meginlandið. En sakir
regns og votviðra er sumarið miklu kaldara og óskemtilegra á ströndunum
heldr en uppi í landinu. Þó eru mánuðirnir maí, júní og mikill partr af
júlí yndislega veðrblíðir--sólríkir, heitir og heiðir. Svo segir Seemann í
sinni bók:[7] "Allr gróðr er þar (þ.e.: á norðr-ströndinni) gífrlega
bráðþroska; og naumast hefir snjóinn tekið upp fyrr en alt er þakið kafi af
grösum og jurtum í fullum gróðri, og þar sem alt var fyrir fám dögum undir
fanna-blæju, grúir nú alt í gróðri, og blöð, blóm og ávextir springa út
hvað á eftir öðru á örstuttum tíma."
Taflan, sem hér fylgir á eftir, sýnir meðalhita árstíðanna að St. Michael's
(á austr-ströndinni við Nortons-grunn, 63° 28' n. br.) og að Fort Yukon
(1200 mílur frá mynni fljótsins, á 66° 34' n. br.)
------------------------------------------------------------------------
Meðalhiti. | St. Michael's. | Fort Yukon. |
|Fahrenheit. | Réaumur. |Fahrenheit. | Réaumur. |
------------------------------------------------------------------------
Vor | +29° 3 | -1° 1 | +14° 22 | -7° 9 |
Sumar | +53° 0 | +9° 3 | +59° 67 | +12° 3 |
Haust | +26° 3 | -2° 2 | +17° 37 | -6° 5 |
Vetr | + 8° 6 | -10° 4 | -23° 80 | -24° 7 |
------------------------------------------------------------------------
Alt árið | +29° 3 | +1° 1 | +16° 92 | -6° 7 |
------------------------------------------------------------------------
Meðalhiti ársins í Yukon-fylki öllu, sem heild skoðað, má ætla að fari
nærri 0 +25° á Fahrenheit (= -3° 1 á Réaumur). Hér við má bera saman ýmsa
staði, sem nefndir eru í Almanakinu íslenzka (þó þar sé hvorki nákvæmt né
alskostar áreiðanlega frá skýrt). Inn mesti kuldi, sem menn vita komið hafa
í Yukon-héraði, er -70° á Fahrenheit (= -45° 3 Réaumur). Þó frjósa fljót og
stórár eigi í inum mestu grimdum. En meðalhiti ársins er engan veginn
mælikvarði fyrir því, hvað gróið og þroskazt getr í einu landi; heldr kemr
það undir hita og lengd sumarsins; þannig er meðalhiti ársins sami í
þrándheimi (Niðar-ósi) og í Reykjavík; þó er kornyrkja og epla-rœkt í
Þrándheimi; en sumarhitinn í Fort Yukon er þó heldr meiri en í Þrándheimi.
"Ég hefi í Fort Yukon séð hitamælinn sýna +112° Fahr. (+35° 5 Réaum.) um
sumarhádegi, en þó í skugga, og foringinn í víginu skýrði mér frá, að það
hefði oft til borið, að hitamælar, er fyltir voru vínanda og merktir +120°
Fahr. (39° 1 Réaum.), hefðu brostið undir inum brennandi geislum
heimskauts-sólarinnar; og fær sá einn þeim hita nærri getið, er hann hefir
reynt" (Dall). "Gróðrinn fram með efra hlut Yukon-fljótsins verðr svo
blómlegr, að maðr mætti ætla að maðr væri í hitabeltinu, er maðr sér það
blómskrúð alt um sumartímann" (Sami).
Nálega alstaðar í Yukon-fylki er gnœgð af timbri. Ið stœrsta og mest um
verða tré, er finst í þessu fylki, er hvíta skrúðfuran (_white spruce_;
_ABIES ALBA_). Þetta fagra tré finst hvervetna í fylki þessu, en stœrst og
þroska-mest í námunda við rennandi vatn. Vðr þess er hvítr, þéttr og beinn;
auðunninn, léttr og þó seigfastr í sér. Eigi getr betra sperruvið; en
oftari hverju eru trén heldr grönn í siglur á stórskip, eins og þau (trén)
eru í þessu fylki; sunnar eru þau enn stœrri. Skrúðfuran verðr hér
jafnaðarlega 50 til 100 feta há og 3 fet að þvermáli (_diameter_); en
almennasta stœrð má þó heita 30 til 40 feta hæð, og 12 til 18 þuml.
þvermál.--Þar næst má telja birkið (_Betula glandulosa_). Eigi verðr það
jafnaðarlega yfir 40 feta á hæð og 18 þuml. að þvermáli. Einnig vex víðast
blakka-birki eða krœklu-birki, en það er til fárra hluta nýtt, þar eð það
er svo smávaxið. Til allrar óhamingju fyrir ina upp vaxandi kynslóð eru
engir skólameistarar í þessu fylki, til að neyta birkihríslnanna til þess,
sem þær eru hœfastar til!
Ýmsar tegundir af poplar-viði (_Populus balsamifera_ og _P. tremuloides_)
vaxa hér kynstrum saman, og oftast vel vaxin. In fyrr nefnda tegund vex með
vötnum fram, en in síðar nefnda á harðvelli. In fyrr nefnda tegund verðr 40
til 60 feta á hæð, og 2 til 3 fet að þvermáli. En mjög er viðr þessi mjúkr
og linr.
Pílviðr (_Salix_) og öln (_Alnus_) eru þau trén, sem mest gnœgð er af; vaxa
hér ýmsar tegundir þeirra, svo sem _Salix speciosa_; _Sal. Richardisonii_,
og _Sal. villosa_; _Alnus viridis_, _Aln. incana_, og _Aln. rubra_.
Margar aðrar trjá-tegundir vaxa hér þótt eigi sé nú rúm né ráð til að telja
það alt hér.
Það yrði með öllu ofverk að fara að reyna að telja hér upp nokkuru fjölda
af inum mörgu og margvíslegu grasa-tegundum, er vaxa í fylki þessu. Þess
skal að eins geta, að gras-vöxtr er þar mikill og góðr hvervetna; má nefna
meðal inna almennustu grasa alkunna blágresis-tegund, er Kentucky-blágresi
kallast (_Poa pratensis_); enn fremr _Poa nemoralís_, _Calamagrostis
Canadensis_, og ótal aðrar grasa-tegundir. Meðal-gras er eigi lægra en 3
feta, en oft 4 til 5 feta hátt.--Tvær tegundir af _Elymus_ (mel, rúg-grasi)
gróa svo ríkulega sumstaðar, að ferðamaðrinn freistast til að halda hann
sjái sána kornakra, þar sem þær vaxa viltar; þær bera þroskað korn.
Kornyrkja má kalla sé óreynd í þessu fylki. Tvisvar hefir bygg-grjónum
verið sáð í Fort Yukon og hepnaðist vel í hvortveggja skipti; grasið varð
smávaxið, en kornið þroskaðist vel. En sakir þess að skinnaverzlunin krafði
allan vinnukraft þeirra hvítra manna, sem þar voru, hefir því eigi verið
fram haldið. Næpur, rófur og redikur og salat og aðrir garðávextir þrífast
vel; Dall segir, að næpur þær, er hann hafi smakkað að St. Michael's hafi
verið þær beztu er hann hafi nokkru sinni séð á æfi sinni. Ávaxtatré eru
engin í þessu fylki, en óteljandi fjöldi berja; Dall nefnir um 20 tegundir,
sem hann segir sé "nokkrar af inum almennari tegundum, er þar vaxa."
Fyrir nauta-rœkt og fjárrœkt er víða ágætt land í fylki þessu. Enginn er
skortr beitilands og slægna; en góða vetrar-hirðing þyrftu gripir að hafa.
Hefir það verið reynt og hepnazt í Fort Yukon, og er það þó fyrir norðan
hvarfbaug (það er talið að liggja á 66° 34' n. br.).
You have read 1 text from Icelandic literature.
Next - Alaska - 3
  • Parts
  • Alaska - 1
    Total number of words is 4345
    Total number of unique words is 1629
    29.0 of words are in the 2000 most common words
    38.0 of words are in the 5000 most common words
    38.0 of words are in the 8000 most common words
    Each bar represents the percentage of words per 1000 most common words.
  • Alaska - 2
    Total number of words is 4450
    Total number of unique words is 1704
    29.6 of words are in the 2000 most common words
    36.4 of words are in the 5000 most common words
    36.4 of words are in the 8000 most common words
    Each bar represents the percentage of words per 1000 most common words.
  • Alaska - 3
    Total number of words is 3239
    Total number of unique words is 1265
    32.6 of words are in the 2000 most common words
    41.1 of words are in the 5000 most common words
    41.1 of words are in the 8000 most common words
    Each bar represents the percentage of words per 1000 most common words.
  • Alaska - 4
    Total number of words is 4397
    Total number of unique words is 1649
    31.0 of words are in the 2000 most common words
    39.7 of words are in the 5000 most common words
    39.7 of words are in the 8000 most common words
    Each bar represents the percentage of words per 1000 most common words.
  • Alaska - 5
    Total number of words is 4944
    Total number of unique words is 1798
    29.1 of words are in the 2000 most common words
    37.9 of words are in the 5000 most common words
    37.9 of words are in the 8000 most common words
    Each bar represents the percentage of words per 1000 most common words.
  • Alaska - 6
    Total number of words is 4867
    Total number of unique words is 1673
    27.1 of words are in the 2000 most common words
    35.4 of words are in the 5000 most common words
    35.4 of words are in the 8000 most common words
    Each bar represents the percentage of words per 1000 most common words.
  • Alaska - 7
    Total number of words is 1987
    Total number of unique words is 929
    32.6 of words are in the 2000 most common words
    40.6 of words are in the 5000 most common words
    40.6 of words are in the 8000 most common words
    Each bar represents the percentage of words per 1000 most common words.